Heimsóknir verða bannaðar á öllum Hrafnistuheimilunum átta næstu tvær vikurnar. Heimsóknabannið tók gildi nú í kvöld.
Í tilkynningu frá neyðarstjórn Hrafnistu segir að í ljósi fjölda smita í samfélaginu, og þess að smit eru farin að breiðast inn á hjúkrunarheimili, hafi verið ákveðið að banna heimsóknir til þess að vernda þá viðkvæmu hópa sem dvelja á hjúkrunarheimilunum.
Þar segir einnig að eingöngu verði veittar undanþágur í sérstökum tilvikum þar sem um alvarleg veikindi er að ræða eða þegar íbúar eru í lífslokameðferð.