Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aurskriðan í Eyjafirði mögulega vegna jarðskjálfta

06.10.2020 - 20:18
Stór aurskriða féll í Hleiðargarðsfjalli ofan við bæinn Gilsá 2 í Eyjafirði í morgun. Engan sakaði en mikil mildi þykir að ekki varð tjón á íbúðarhúsi. Skriðan stöðvaðist um hundrað metra frá húsinu. Jarðvísindamaður hjá Veðurstofunni útilokar ekki að skriðan tengist jarðhræringum á Tjörnesbrotabelti.

„Frekar óþægilegt“

Skriðan féll laust fyrir klukkan ellefu í morgun og í kjölfarið lokaði lögreglan veginum neðan við svæðið og gekk úr skugga um að enginn væri í húsunum. Jóhann Gíslason, bóndi á Gilsá var við vinnu á Akureyri þegar hann fékk fregnir af skriðunni. Hann segir erfitt að átta sig á tjóninu en talið er líklegt að vatnsbólið fyrir bæina hafi eyðilagst.

„Maður veit ekki alveg hvað er að gerast hérna en þetta er frekar óþægilegt.  Mér var nú sagt að þetta væri miklu meira til að byrja með en þetta er svosem alveg nóg,“ segir Jóhann. 

Gæti tengst jarðhræringum

Sveinn Brynjólfsson, Jarðvísindamaður hjá Veðurstofunni útilokar ekki að skriðan tengist jarðhræringum á Tjörnesbrotabeltinu. 

„Þetta er bara gríðarlega stór skriða og tilkomumikið að vera hérna. Það heyrist mikið í þessu og alltaf að falla svona litlir púlsar í þessu . Það kemur svolítið á óvart að það skuli falla svona stórt þegar það er ekki búið að vera mikil úrkomutíð,“ segir Sveinn. 

Gæti þetta tengst jarðskjálftahrinunni í Tjörnesbrotabelti?

„Já já, það er ekki hægt að útiloka það.“