Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um tuttugu smit rakin til Hnefaleikafélags Kópavogs

05.10.2020 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Iðkandi hjá Hnefaleikafélagi Kópavogs greindist smitaður af COVID-19 á fimmtudaginn í síðustu viku efir að hafa stundað æfingar í húsnæði félagsins. Í dag eru um 20 smit rakin til hnefaleikafélagsins.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn staðfesti þetta við Vísi. 

Smitin bæði hjá iðkendum og öðrum ótengdum félaginu

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði við fréttastofu að smitin hafi greinst bæði hjá iðkendum félagsins og öðrum sem höfðu verið í návígi við þá síðustu daga.

Í tilkynningu frá Hnefaleikafélagi Kópavogs segir að félagið hafi strax gripið til viðeigandi varúðarráðstafana. Þeir sem vitað var að hefðu verið í húsinu undanfarna viku var tilkynnt um það og var húsinu lokað meðan beðið var eftir niðurstöðum um hvort fleiri hefðu smitast.

Félagið verður lokað næstu tvær vikurnar og eru allir iðkendur sem finna fyrir einkennum beðnir að hafa strax samband við heilsugæslu eða hringja í síma 1700. Einnig eru þeir sem finna ekki fyrir einkennum en hafa verið í húsinu eða návígi við einhvern iðkanda beðnir að kanna möguleika á að fara í sýnatöku.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því á upplýsingafundi í dag að fjöldi nýrra smita væri rakinn til hnefaleikafélagsins, en einnig til kráa, fjölskyldna í miklu samneyti og vinahópa sem gerðu sér glaðan dag. Þá er enn fjöldi smita órakinn.

Mynd með færslu