Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Trump útskrifaður af spítala í kvöld

05.10.2020 - 18:58
Mynd: EPA-EFE / THE WHITE HOUSE
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, greindi frá því í færslu á Twitter rétt í þessu að hann verði útskrifaður af spítala í kvöld. Hann sagði einnig í færslunni að Bandaríkjamenn eigi ekki að vera hræddir við COVID-19.

Forsetinn var greindur með veiruna í síðustu viku og lagður inn á sjúkrahús á föstudag. Í færslunni segir forsetinn að honum líði mjög vel, betur en fyrir tuttugu árum síðan. „Ekki vera hrædd við COVID. Ekki láta það stjórna lífi ykkar,“ segir í færslunni.

Tólf af nánustu samstarfsmönnum Trumps hafa einnig verið greindir með veiruna, auk nokkurra annarra starfsmanna Hvíta hússins. 

Uppfært klukkan 19:15: Læknar Trump héldu fréttamannafund fyrir utan spítalann rétt í þessu. Þar kom fram að forsetinn sé á góðum batavegi. Honum hafi verið gefið veirulyfið remdesivir þrisvar sinnum og að hann fái fjórða skammtinn áður en hann fer heim í kvöld. Það er lyf sem læknar telja að gagnist í meðferð við COVID-19. Á heimili sínu í Hvíta húsinu fái Trump bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ sé á. Þar verði honum einnig gefið remdesivir.