Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kallað eftir rökstuðningi og viðbrögðum vegna lokana

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Bogadóttir - Félag Atvinnurekenda
Stjórnvöld verða að gefa út með skýrum hætti hvernig komið verður til móts við fyrirtæki sem hætta þurfa rekstri í yfirstandandi bylgju heimfaraldurs COVID-19. 

Þetta kemur fram í erindi sem Félag atvinnurekenda hefur sent heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra vegna ákvæða í reglugerð heilbrigðisráðherra sem birt var í gærkvöldi.

Þar segir að vegna sóttvarna skuli skemmtistaðir, krár og spilasalir loka frá og með deginum í dag að telja. Líkamsræktarstöðvum er einnig gert að loka húsnæði sínu fyrir almenningi. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í samtali við fréttastofu að það skjóti skökku við að stjórnvöld grípi til íþyngjandi ráðstafana án þess að fyrirhuguð viðbrögð liggi fyrir. Félagið hafi beðið um endurskoðun á viðbrögðum stjórnvalda.  

„Félag atvinnurekenda telur mikilvægt að samhliða þessum mjög svo íþyngjandi aðgerðum gagnvart tilteknum hópum fyrirtækja gefi stjórnvöld út með skýrum hætti hvort og þá hvernig verði komið til móts við fyrirtæki sem neyðast til að hætta rekstri í þessari bylgju faraldursins; hvort veittir verði lokunarstyrkir eins og í fyrstu bylgjunni eða komið til móts við fyrirtækin með öðrum hætti,“ segir í erindi FA. 

Skýrar línur séu mikilvægar, bæði til að tryggja skilvirkni sóttvarnaraðgerða og til að tryggja að atvinnurekendur geti frekar séð fyrir hvað til stendur varðandi stuðning við þá af hálfu stjórnvalda. Jafnframt er áréttað að allir frestir til að sækja um lokunarstyrki hafi runnið út 1. október, þar með taldir viðbótarlokunarstyrkir. 

Aðstandendur nokkurra minni líkamsræktarstöðva sendu einnig frá sér yfirlýsingu í dag þar sem bent var á mikilvægi hreyfingar, ekki síst á tímum heimsfaraldurs. Hreyfing styrkir ónæmiskerfið, segir í yfirlýsingunni.

Jafnframt er sagt að á stöðvunum hafi verið gætt vel að því að fylgja öllum sóttvarnarreglum, án nokkurra vandkvæða.  Því kalla eigendur þessara líkamsræktarstöðva eftir rökstuðningi stjórnvalda vegna ákvörðunar um lokanir og að hún verði endurskoðuð sem fyrst.