Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Harmar og raunir gleymdust við hannyrðirnar

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Harmar og raunir gleymdust við hannyrðirnar

05.10.2020 - 09:29

Höfundar

„Í raun og veru þá er textíll eitt af aðalatriðunum í okkar efnisheimi. Við erum alltaf í snertingu við textíl, nema bara rétt á meðan við bregðum okkur í sturtu. Það er í rauninni eina andartakið þar sem við erum ekki í beinni snertingu við textíl,“ segir Lilý Erla Adamsdóttir, myndlistarmaður og deildarstjóri Myndlistaskólans í Reykjavík.

Textíll kemur vissulega við sögu í lífi okkar allra, bæði þá og nú, og hannyrðir hafa verið hluti af sögu íslenskra kvenna um aldir, þótt „myrkur aldanna“ hylji hluta þeirrar sögu, líkt og Málmfríður Sigurðardóttir komst svo vel að orði í þættinum Ljáðu mér eyra frá 1986. Málmfríður rak sögu hannyrða hér á landi í þættinum:

„Hvernig sem þjóðfélagsaðstöðu hannyrðakvenna var háttað fyrr á tímum, þá hafa flestar þeirra orðið gleymskunni að bráð og ótalin verk þeirra eyðst með ýmsu móti. Af hannyrðum þeim sem forlögin hafa fleytt lítt, eða ekki sködduðum, fram á þennan dag, má þó öllum ljóst vera að með því að skeyta spor við spor af þolinmæði, alúð og listfengi, sköpuðu konur á umliðnum öldum sum bestu og áhrifamestu myndverk íslensku þjóðarinnar.“  

„Þráin til að gera fagra hluti, hafa eitthvað fallegt fyrir augum, hefur án efa hvatt konur til hannyrða, orðið þeim hvíld og upplyfting, jafnvel þótt þeim fyndist þær stela stundunum til þess frá annarri og ef til vill þarfari eða nytsamlegri iðju. Við hannyrðirnar gleymdust harmar, raunir og tilbreytingarlítið hversdagsamstur, sem í sjálfu sér var og er margri konu þjáning,“ sagði Málmfríður. 

Framtíð hannyrða stafræn?

Þrátt fyrir að hannyrðir séu enn viðamikið viðfangsefni kvenna nú á dögum hefur greinin tekið þó nokkrum breytingum í takt við þróun samfélagsins. 

Ragnheiður Björk Þórsdóttir, textíllistakona og vefari, bendir á að textíliðnaðurinn verði sífellt stafrænni. Hún fór meðal annars fyrir verkefni um stafrænan textíl sem fólst í því að koma handskrifuðum hannyrðauppskriftum yfir á aðgengilegt tölvutækt form.  

Þá kynnir hún stafrænan vefstól fyrir hlustendum. „Stafrænn vefstóll er í raun vefstóll sem gengur fyrir tölvu. Tölvan stjórnar öllu ferlinu í vefstólnum, hvaða þræðir fara upp og hvaða þræðir fara niður. Þannig að þú getur ofið allt sem þú vilt í stafrænum vefstól. Ragnheiður segir slíka vefstóla vera skemmtilega viðbót en telur þó ekki að tilkoma hans verði til þess að gamli góði vefstóllinn hverfi með öllu.“

Í útvarpsþættinum Glans eru grafin upp gömul hljóðbrot úr safni RÚV og hlustað á þau með eyrum ársins 2020. Rætt er við samtímafólk og þegar möguleiki gefst, einhvern sem tengist umræddri upptöku. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Fólki finnst merkilegt að ég sé karl að sauma“

Prjónaleiðbeiningar jafn flóknar og forritunarmál

Menningarefni

Tekst á við parkinsonsjúkdóminn með saumaskap

Stjórnmál

Heklar teppi til að ná bata frá kulnun