
Flestir farþegar með grímur en einhverjum vísað frá
Guðmundur segir að sumir vagnstjóranna hafi tekið hart á málum og vísað grímulausu fólki frá, en aðrir hafi hleypt fólki að og minnt það á að hafa grímu næst. Hann segir að nú ætli forsvarsmenn Strætó þó að skerpa á þessu við vagnstjórana og beina því til þeirra að tryggja að allir hafi grímur um borð.
Stuttur fyrirvari – margar kvartanir
Að sögn Guðmundar bárust leiðbeiningar um grímuskyldu seint í gærkvöldi: „Ég fékk lokareglugerðina ekki fyrr en um níu-leytið og við sendum skilaboð til vagnstjóranna um tíu eða ellefu-leytið.“
Aðspurður hvort margar kvartanir hafi borist vegna þessa stutta fyrirvara segir Guðmundur vissulega mikið um kvartanir, sérstaklega á Facebook. Þótt flestir hafi haft grímur hafi einhverjum farþegum verið vísað frá.
Inni í Strætó-appinu, þar sem farþegar geta keypt strætómiða og séð hvar strætó er staddur, er engin áminning um að farþegar þurfi að bera grímur. Spurður um þetta segir Guðmundur að áminning sé inni á heimasíðunni en neyðartilkynningar séu ekki í boði í appinu. „Það er tæknileg útfærsla sem við þyrftum að bæta við, það er góður punktur,“ segir hann.
Ólíklegt að Strætó bjóði upp á grímur
Aðspurður segir Guðmundur ólíklegt að Strætó bjóði upp á grímur eða selji þær í vögnunum. „Það fylgir þvi mikill kostnaður að bjóða fólki upp á grímur og okkur finnst ekki endilega viðeigandi að fólk sé með hendurnar ofan í kössum með grímum, svona upp á snertifleti,“ segir hann. Þá myndu fylgja því aukin samskipti milli farþega og vagnstjóra ef vagnstjórar seldu grímur í vögnunum.
Skiptar skoðanir á sóttvarnareglum meðal vagnstjóra
Guðmundur segir að það séu skiptar skoðanir á sóttvarnareglum meðal vagnstjóranna. Flestir séu ánægðir með plexi-glerin sem nú hafa verið sett við vagnstjórasætin til þess að hlífa þeim. Sumir þeirra vilji loka aftur framdyrunum , eins og var gert í fyrstu bylgju faraldursins. Það komi þó ekki til greina að gera það aftur, enda hafi það haft ýmsar flækjur í för með sér, til dæmis varðandi greiðslur.
Hann segir að lokum að farþegar séu ábyrgir fyrir sínum eigin sóttvörnum í Strætó. Vagnstjórar séu ekki settir í eftirlitshlutverk og fylgist til dæmis ekki með því hvers konar grímur fólk hafi eða hvort það taki af sér grímur inni í vagninum. Það sé á ábyrgð hvers og eins.