Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Barnaathvörf opnuð í sveitarfélögum Grænlands

05.10.2020 - 06:21
Mynd með færslu
 Mynd: sjáskot - Írska ríkissjónvarpið
Grænlenska landstjórnin og sveitarstjórnir allra fimm sveitarfélaga landsins hafa hrint af stokkunum þriggja ára samstarfsverkefni um rekstur barnaathvarfa í kringum útborgunardaga. Í frétt á vefsíðu grænlenska ríkisútvarpsins KNR segir að allt of mörg börn séu beitt kynferðisofbeldi og líði fyrir grófa vanrækslu þegar foreldrarnir drekki sig ofurölvi.

Því hyggist landstjórnin og sveitarfélögin taka höndum saman og koma á laggirnar barnaathvarfi í hverju sveitarfélagi, sem börn og unglingar geta leitað til á kvöldin og nóttunni um helgar, einkum í kringum útborgunardaga.

„Það er eindregin ósk barnanna að eignast athvarf í kringum útborgunardaga, þegar foreldrarnir eru ófærir um að gæta þeirra. Börnin vilja komast á einhvern öruggan stað, þar sem fyrir er fullorðið fólk til að tala við og leita eftir öryggi hjá,“ segir Marta Abelsen, sem fer með félagsmál í landstjórninni, í viðtali við KNR. Athvörfin verða opnuð þegar í þessum mánuði í Aasiaat, Ilulissat, Sisimiut, Nanortalik og höfuðstaðnum Nuuk, og verða rekin í það minnsta til ársloka 2023.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV