Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skiptar skoðanir á aðgerðum: „Eru ekki allir þreyttir?“

04.10.2020 - 20:04
Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� / RÚV
Neyðarstig almannavarna verður virkjað á miðnætti vegna útbreiðslu smita í samfélaginu. Mikill meirihluti þeirra sem greindust með veiruna í gær var ekki í sóttkví.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að það sýni alvarleika faraldursins að almannavarnir hafi boðað neyðarstig. Þá sagði hann að mikið samfélagslegt smit  væri í gangi, og meira en vonast var til að yrði.

Fólk sem fréttastofa ræddi við í dag sýnir hertum aðgerðum skilning en segist vera orðið þreytt á ástandinu eins og sjá má í myndskeiðinu sem fylgir.

Hvað finnst þér um þessar hertu sóttvarnareglur sem taka gildi á miðnætti?

„Ég er bara mjög ánægð með þær. Það var kominn tími til. Ég hefði viljað hafa þetta fyrr,“ segir Arna María Kjartansdóttir. 

„Mér finnst þær sjálfsagðar. Bara bráðnauðsynlegar. Ég fer ekki í eldri borgara-starfið nema mjög lítið. Hitti fólkið mitt ekki mikið,“ segir Birna Markúsdóttir.

„Maður skilur alveg að þeir þurfi að herða á en á sama tíma þá er líkamsræktin mikilvæg til að halda andlegri heilsu og geði. Eru ekki allir orðnir þreyttir á þessu ástandi? Maður verður bara að reyna að gera sitt besta,“ segir Hörður Helgi Hallgrímsson.

„Það er verið að setja alla undir sama hatt og að loka líkamsræktarstöðvum á Akureyri er náttúrulega bara stórfurðulegt. Þetta er voðalega skrýtið. Ég er mættur hérna á sunnudegi því ég kemst ekki á morgun. Ég þarf að hreyfa mig á hverjum degi bara til þess að halda heilsu og halda styrk,“ segir Óskar Finnsson.