Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neyðarstigi almannavarna lýst yfir á ný

04.10.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni hefur ákveðið að færa núverandi almannavarnastig af hættustigi og upp á neyðarstig vegna COVID-19. Það tekur gildi frá og með miðnætti, á sama tíma og hertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi.

Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu.

Upplýsingafundir almannavarna verða hér eftir klukkan 11 á mánudögum og fimmtudögum, en ekki klukkan 14 eins og verið hefur. 

47 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Einungis ellefu þeirra voru í sóttkví. 634 eru í einangrun með sjúkdóminn. Á miðnætti taka í gildi hertar aðgerðir, en helstu breytingar fela í sér að fjöldatakmörkun miðast við 20 manns með undantekningum. Eins metra reglan verður áfram í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

Frá 15. september til 4. október hafa um 630 einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands. Jafnframt hefur daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og  hlutfall þeirra sem er í sóttkví verið um 50%. Í dag eru þrettán á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu og tveir á öndunarvél.

Hefur ekki teljandi áhrif á almenning

Neyðarstigi var fyrst lýst yfir vegna COVID-19 6. mars síðastliðinn, eftir að fyrstu smitin greindust hér á landi. Neyðarstigi var aflétt og fært niður á hættustig 25. maí og hefur verið þannig síðan. 

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að virkjun neyðarstigs hafi ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 25. maí. Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafi undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða.

Viðbúnaðarstig almannavarna hér á landi eru þrjú; óvissustig, hættustig og neyðarstig, sem er það efsta. Í tilfelli farsótta er það virkjað þegar heilbrigðisöryggi manna er ógnað og útbreiðsla smita er vaxandi og viðvarandi.