Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hertar samfélagslegar aðgerðir taka gildi á miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Hertar samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 taka gildi á miðnætti. Helstu breytingar fela í sér að fjöldatakmörkun miðast við 20 manns með undantekningum. Eins metra reglan verður áfram í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

Heilbrigðisráðherra birtir reglugerð um breytingarnar í dag. Hún fellst á tillögu sóttvarnalæknis í meginatriðum en gerir undantekningar á 20 manna takmörkunum í framhalds- og háskólum þar sem mega vera 25 í sama rými, í útförum, þar sem mega vera 50 og 100 mega vera í stærri verslunum.

Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað og sundlaugum heimilt að taka við helmingi færri gestum en starfsleyfi sýnir.

Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla.

Ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum en starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu. 

Í fyrradag greindust 61 smit, þar af voru 39 utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í fréttum í gær að þessi mikli fjöldi væri áhyggjuefni, nú sé þróunin í veldisvexti en ekki línulegum vexti eins og verið hefur.

Í minnisblaði hans kemur fram að frá 15. september til 1. október hafi um 560 einstaklingar greinst innanlands, daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30 til 40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví verið um 50 prósent. Á sama tíma hafi fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega aukist og um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Tölur úr skimunum í gær verða birtar að venju klukkan 11 á www.covid.is