Mynd: Birgir Þór Harðarson

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Grímuskylda í öllum strætisvögnum frá og með mánudegi
04.10.2020 - 23:23
Frá og með morgundeginum verður öllum farþegum og bílstjórum hjá Strætó á höfuðborgarsvæðinu skylt að bera andlitsgrímu. Andlitsgrímuskylda gildir nú þegar í Strætó á landsbyggðinni og gerir það áfram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó bs. Þetta þýðir að fólki sem ekki ber andlitsgrímu verður óheimilt að nota almenningssamgöngur, með vísan til reglugerðar heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir, sem öðlast gildi á miðnætti.
Í tilkynningu Strætó bs. er vakin athygli á því, að börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin grímuskyldunni, og að strætisvagnar séu undanþegnir reglunni um 20 manna hámarksfjölda, sem skýrist ekki síst af grímuskyldunni. Þá eru viðskiptavinir Strætós minntir á að þeir skuli ekki ferðast með strætó, séu þeir með flensueinkenni.