Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Víðfeðmustu gróðureldar í sögu Kaliforníu loga enn

epa08704832 A vineyard is seen as the Glass Fire burns in the mountains above the town of Calistoga in Napa County, California, USA, 28 September 2020. Northern California is under extreme fire alert.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Miklir skógar- og gróðureldar loga enn í Kaliforníu og varað er við hitabylgju meðfram endilangri Kaliforníuströnd næstu daga. Óttast er að hitinn og þurrir og hlýir vindar blási enn meiri krafti í eldana, sem þegar eru orðnir þeir mestu og víðfeðmustu sem sögur fara af í ríkinu. Við San Francisco-flóa hefur viðvörun vegna reykmengunar verið í gildi um hríð og andrúmsloftið flokkað sem „óheilnæmt.“ Í tilkynningu yfirvalda segir að sú viðvörun hafi verið framlengd fram í miðja næstu viku.

Metið löngu hrunið og enn mikið eftir

Aldrei hefur jafn stórt svæði orðið gróðureldum í bráð á einu ári í Kaliforníu frá því að byrjað var að halda utan um slíkt með skipulegum hætti. Thom Porter, yfirmaður hjá skógar- og eldvarnarstofnun Kaliforníu, Cal Fire, segir útlit fyrir að 16.000 ferkílómetra markinu verði náð á allra næstu dögum, en fyrra met hljóðaði upp á 6.200 ferkílómetra. „Við erum að rústa því meti og það er enn mikið eftir af skógareldatímabilinu,“ segir Porter.

Þúsundir dauðsfalla raktar til reykjarkófsins

Reykjakóf frá gróðureldunum liggur yfir stórum hluta vesturstrandar Bandaríkjanna, allt frá Portland í Oregon til Santa Barbara í Kaliforníu. Í frétt breska blaðsins Guardian segir að heilbrigðisyfirvöld hafi áhyggjur af skaðlegum áhrifum óloftsins, jafnvel eftir að kófinu léttir. Vísindamenn við Stanford-háskóla hafa rakið allt að 3.000 dauðsföll í Kaliforníu til reykmengunarinnar á aðeins einum mánuði, einkum meðal eldra fólks með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma.