Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttvarnaraðgerðir hertar - 20 manna fjöldatakmörkun

Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnaaðgerðir verða hertar og gripið til tuttugu manna fjöldatakmörkunar. Þetta var niðurstaða ríkisstjórnarinnar á fundi sem lauk á fjórða tímanum. Fjöldatakmörkunin verður þó með ákveðnum undantekningum. Þá stendur til að loka börum og skemmtistöðum að nýju, auk líkamsræktarstöðva. Sundlaugar verða þó áfram opnar, en með fjöldatakmörkunum. Breytingarnar taka líklega gildi strax eftir helgi.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan tvö í dag til þess að ræða tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að hertum sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Þórólfur skilaði minnisblaði með tillögum sínum til heilbrigðisráðherra á tólfta tímanum í morgun.

„Við munum herða aðgerðir verulega“

„Við vorum að fara yfir minnisblað sóttvarnalæknis, sem hann sendi heilbrigðisráðherra fyrir hádegi í dag. Þar eru lagðar til mjög hertar reglur til þess að takast á við útbreiðslu faraldursins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að fundinum loknum. „Og ég held að við séum öll slegin yfir smittölunum í dag sem eru óhugnanlegar. Sömuleiðis þeirri staðreynd sem við höfum séð undanfarna daga að of stór hluti þeirra sem eru að greinast er ekki í sóttkví. Sem segir okkur að það er mjög víða samfélagslegt smit. Þannig að tillögur sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra snúast um að grípa til verulega hertra aðgerða. Við fórum yfir þær tillögur á þessum fundi. Veigamesta tillagan snýr að verulegri lækkun á fjöldatakmörkunum, það er að segja að fara almennt niður í tuttugu manna hámark, þó með tilteknum undantekningum sem verða skilgreindar í auglýsingu sem heilbrigðisráðherra mun gefa út,“ sagði Katrín, en sjá má viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.

Verða allar tillögur sóttvarnalæknis samþykktar?

„Nú mun heilbrigðisráðherra fara yfir þessar tillögur eftir þessa umræðu á ríkisstjórnarfundinum og hún mun birta auglýsingu í kjölfarið. Sú auglýsing verður væntanlega birt á morgun. Og það sem ég get sagt er að það eru ákveðnar sérreglur, tökum sem dæmi útfarir og annað slíkt, sem verður þá gerð nánari grein fyrir í auglýsingunni. En stóru skilaboðin eru þau að við munum herða aðgerðir verulega,“ sagði Katrín.

Færri gestir í sund

Katrín sagði að stjórnvöld meti það þannig að staða faraldursins sé slík að nauðsynlegt sé að grípa inn í með mjög ákveðnum hætti.

„Þetta mun líka þýða tilteknar lokanir. Annars vegar á börum, aftur, spilasölum og slíkum stöðum, og líkamsræktarstöðvum. Tillaga sóttvarnalæknis snýst um það.“

Þá sagði Katrín að sundlaugar verði áfram opnar, en að færri gestum verði hleypt ofan í í einu en nú er gert.

Nú var þetta frekar langur fundur, var ekki einhugur í ríkisstjórn um þessar ákvarðanir?

„Það var einhugur í ríkisstjórninni en hins vegar er það þannig að þetta eru stórar ákvarðanir, þær varða hag okkar allra og þær varða líf okkar allra. Og það er mjög mikilvægt að við gefum okkur tíma til að ræða þær og fara mjög nákvæmlega yfir þær.“

Að minnsta kosti tvær vikur

Aðspurð sagði Katrín að starfsemi grunn- og leikskóla verði nokkuð óbreytt en að aðrar reglur um skólahald verði birtar í auglýsingunni á morgun.

Hvenær taka þessar tillögur gildi og hversu lengi gerir þú ráð fyrir að þær muni gilda?

„Eins og ég segi, þá er auglýsingin ekki birt en þetta mun líklega gilda í að minnsta kosti tvær vikur.“

Og mun þetta taka gildi strax eftir helgi?

„Væntanlega,“ sagði Katrín.

61 smit greindust í gær, þar af voru 39 utan sóttkvíar. Þórólfur segir að þessi mikli fjöldi sé áhyggjuefni, nú sé þróunin í veldisvexti en ekki línulegum vexti eins og verið hefur.

Fréttin hefur verið uppfærð.