Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

50 mega vera í útförum og 100 í búðum

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið / Heilbrigðisráðuneytið
Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu COVID-19. Í þeim felast 20 manna fjöldatakmarkanir, 50 manna hámark í útförum og 100 manna hámark í verslunum sem eru minni en 1.000 fermetrar. Ný reglugerð þess efnis tekur gildi mánudaginn 5. október  og verður birt á morgun. Lagt er til að hún verði í gildi í 2-3 vikur og að aðgerðirnar verði í stöðugu endurmati.

Þessar aðgerðir eru lagðar til í minnisblaði sóttvarnalæknis og hefur heilbrigðisráðherra fallist á þær að mestu leyti en því að í framhalds- og háskólum munu gilda 25 manna fjöldatakmarkanir og 50 manna fjöldatakmarkanir í útförum.

Stærstu einstöku breytingarnar verða 20 manna fjöldatakmörkun með ákveðnum undantekningum en þar má nefna 50 manna hámark í útförum  og 100 manna hámark í tilteknum verslunum.

Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum, eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi. Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla. Í framhalds- og háskólum munu gilda 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjarstærð.

Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð. Gerð verður sérstök grein fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum. Starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu.

Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með 50 þátttakenda hámarksfjölda að uppfylltum tilteknum skilyrðum.