Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

11 smit rakin til undirbúnings kappræðnanna í Cleveland

epa08704726 A general view of the stage area as it is prepared for the first 2020 presidential election debate, at Samson Pavilion in Cleveland, Ohio, USA, 28 September 2020. The first presidential debate between US President Donald J. Trump and Democratic presidential candidate Joe Biden takes place 29 September and is co-hosted by Case Western Reserve University and the Cleveland Clinic.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Skrifstofur Clevelandborgar tilkynntu í gær að minnst ellefu staðfest COVID-19 smit hefðu þegar verið rakin til undirbúnings kappræðna þeirra Donalds Trumps og Joes Bidens, sem haldnar voru í borginni á þriðjudagskvöld.

 

„Samtals, á þessari stundu, er okkur kunnugt um ellefu tilfelli sem rekja má til skipulagningar og undirbúnings fyrir kappræðurnar," segir í tilkynningu frá borginni. „Á þessari stundu, þótt það gæti átt eftir að breytast, virðast engir íbúar [Clevelandborgar] hafa smitast af veirunni í tengslum við þennan viðburð."

Afþökkuðu grímur þrátt fyrir reglur um grímunotkun

Enn hefur ekkert smit verið rakið beint til kappræðnanna sjálfra. Emilia Sykes, leiðtogi Demókrata á Ohio-þingi, var í hópi boðsgesta á kappræðunum. Hún sagði frá því á Twitter í gær að skimun fyrir COVID-19 hefði verið skilyrði fyrir aðgangi. Læknir hafi boðið öllum grímur, sem ekki voru með slíkar, en margir úr fylgdarliði forsetans hafi afþakkað þær.

Chris Wallace, fréttamaður á Fox-sjónvarpsstöðinni, sem stjórnaði kappræðunum, hafði sömu sögu að segja í gær. „Þau bönduðu grímunum frá sér," sagði hann í fréttatíma stöðvarinnar.

Áður höfðu skipuleggjendur kappræðnanna og kosningateymi beggja frambjóðenda samþykkt reglur um að allir á staðnum skyldu bera grímur fyrir vitum sér, að frambjóðendunum og stjórnandanum undanskildum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV