Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Refsiaðgerðir gegn Hvít-Rússum og Tyrkir varaðir við

02.10.2020 - 02:24
epa08714332 European Commission President Ursula von der Leyen (R) is seen during a news conference with European Council President Charles Michel (L) during a European Union (EU) summit in Brussels, Belgium, 02 October 2020.  EPA-EFE/Johanna Geron / POOL
 Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkti í kvöld refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Hvíta Rússlandi og boðar einnig aðgerðir gegn Tyrkjum, láti þeir ekki af tilraunaborunum eftir gasi í efnahagslögsögu Kýpur. Um 40 háttsettir ráðamenn í Hvíta Rússlandi fá ekki að ferðast til Evrópusambandsins í bráð.

Fundur leiðtoganna stóð fram yfir miðnætti að staðartíma enda margt að ræða, meðal annars banatilræðið gegn Rússanum Aleksej Navalny og átökin í Nagorno Karabakh. Meginefni fundarins var þó að ná samkomulagi um refsiaðgerðir gegn stjórnvöldum í Hvíta Rússlandi, vegna kosningasvika í forsetakosningunum þar í landi í ágúst og ofsókna í garð stjórnarandstæðinga í kjölfar þeirra.

Kýpur beitti neitunarvaldi til að ná sínu fram

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins náðu raunar samkomulagi um þær aðgerðir viku síðan, en formleg samþykkt þeirra strandaði á því að Kýpverjar beittu neitunarvaldi. Það gerðu þeir ekki vegna þess að þeir væru mótfallnir aðgerðunum, heldur notuðu þeir þetta til að knýja fram ályktun ráðsins gegn tilraunaborunum Tyrkja í kýpverskri og að hluta grískri efnahagslögsögu.

Sjá einnig: Ekkert samkomulag um refsiaðgerðir gegn Hvíta-Rússlandi

Leiðtogaráðinu tókst svo í gær að koma sér saman um yfirlýsingu um þetta efni, sem Kýpverjar gátu sætt sig við, og létu þeir þá af andstöðu sinni við refsiaðgerðir gegn Hvít-Rússum.

Góð samskipti við Tyrki kalla á að þeir láti af yfirgangi sínum

„Við viljum eiga uppbyggileg og jákvæð samskipti við Tyrki. En það getum við því aðeins, að þeir láti af ögrunum sínum og yfirgangi," sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á fréttamannafundi að fundi loknum.

Sjá einnig: ESB varar Tyrki við efnahagsþvingunum

 

„Haldi stjórnvöld í Ankara uppteknum hætti [varðandi tilraunaboranir í kýpverskri lögsögu] þá mun Evrópusambandið nýta sér öll þau tól og leiðir sem til eru. Við höfum ýmis ráð sem við getum gripið til fyrirvaralaust."

40 hvítrússneskir ráðamenn í ferða- og viðskiptabann

Refsiaðgerðirnar gegn Hvíta Rússlandi felast í ferða- og viðskiptabanni gegn 40 háttsettum stjórnmála- og embættismönnum þar í landi, en þó ekki gegn forsetanum sjálfum, Aleksander Lukasjenko. Þau sem bannið nær til fá ekki að ferðast til ríkja Evrópusambandsins, eignir þeirra í þeim ríkjum eru frystar og viðskipti við þau bönnuð.

Sjá einnig: Beita Lúkasjenkó og menn hans refsiaðgerðum

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, sagði að með þessu hefði sambandið sent Lukasjenko og hans fylgdarliði skýr skilaboð og þótt forsetinn væri sjálfur ekki á listanum, þá gæti það hæglega átt eftir að breytast.