Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gyllti miðinn í hendurnar á ástríðufullum bókaunnendum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Gyllti miðinn í hendurnar á ástríðufullum bókaunnendum

02.10.2020 - 06:25

Höfundar

„Við áttuðum okkur á því að það er fleira fólk en í okkar hjúp sem er að lesa bækur,“ segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Breytingar hafa verið gerðar á því hvernig valið er í dómnefndir bókmenntaverðlaunanna. Í stað þess að dómnefndirnar væru handvaldar var leitað út fyrir hjúpinn og auglýst eftir „ástríðufullum bókaunnendum,“ eins og Bryndís orðar það. Og þeir sem hrepptu hnossið fá nú tækifæri til að velja athyglisverðustu bækur ársins.

Gyllti miðinn, sem prýðir bækurnar sem tilnefndar eru til bókmenntaverðlauna, hefur verið eftirsóknarverður og lengi þótt ávísun á góða sölu fyrir jólin þegar bóksala er í hæstu hæðum. 

Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum sem undanfarin ár hafa verið afhent á Bessastöðum við hátíðlega athöfn.

Venjan var sú að stjórn félagsins tilnefndi fólk í dómnefndirnar þrjár og svo var það skrifstofa félagsins sem valdi úr þeim hópi. „En nú ákváðum við að stokka upp og auglýsa eftir fólki og fengum vægast sagt brjálæðislega góð viðbrögð,“ segir Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Og það eru engar ýkjur því 273 sóttu um.  Meðalaldur þeirra var 43 ár, sá elsti  80 ára en yngsti 10 ára. Það vekur athygli að verulegur kynjahalli var á umsóknunum því 80 prósent umsækjenda voru konur. 

Fólk gat sótt um að komast í eina eða fleiri nefndir. Flestir eða 203 sóttust eftir því að sitja í íslensku skáldverkanefndinni, 165 vildu vera í barnabókanefndinni og 101 í verðlaunanefndinni fyrir fræðibækur og rit almenns efnis. 

Bryndís segir sérstaka verðlaunanefnd úr röðum útgefanda hafa farið í gegnum umsóknirnar og grisjað út þrjátíu nöfn, tíu fyrir hverja nefnd. Skrifstofa félagsins fékk síðan það verkefni að velja þá níu sem fá það verkefni að tilnefna athyglisverðustu bækurnar. „Við vildum sjá meiri fjölbreytileika í bæði aldri og menntun sem myndi þá endurspegla bókaunnendur.“

Ekki er gefið upp hverjir sitja í nefndunum þremur fyrr en 1. desember „En þetta er menntað fólk með fjölbreytta menntun.“