Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fékk ekki niðurstöðuna fyrr en sjö árum síðar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Kona, sem fór í leghálsskimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins árið 2013 án athugasemda, greindist með krabbamein í legi tveimur árum síðan. Nýverið bað hún um að sjö ára gamalt sýni sitt yrði endurskoðað en í því voru frumubreytingar. Henni var sagt að ekki hefði náðst í hana á sínum tíma til að láta hana vita af niðurstöðunum.

Málum átta kvenna sem taldar eru hafa fengið ranga niðurstöðu úr skimunum við leghálskrabbameini hjá Krabbameinsfélaginu verður vísað til Embættis landlæknis. Flestar eru þær látnar og ein er alvarlega veik af krabbameini.

Ein kvennanna greindist með frumubreytingar árið 2013 en var ekki látin vita af þeim, greindist með krabbamein í legi tveimur árum síðar og fór í kjölfarið í legnám. Lögmanni kvennanna, Sævari Þór Jónssyni, hafa borist fjölmargar fyrirspurnir vegna svipaðra mála. 

„Af þeim fjölda sem við höfum fengið þá eru þetta átta mál sem  við ætlum að vísa áfram. En ég veit ekki hver heildarfjöldi mála verður á endanum. Það er greinilegt af það virðist vera einhver brotalöm á samskiptum Krabbameinsfélagsins við sína skjólstæðinga,“ segir Sævar.

Konurnar fóru í skimanir á tímabilinu 2013-2018. Nýjasta málið sem Sævar mun vísa til landlæknis er mál konu um þrítugt sem fór í sýnatöku árið 2013 án athugasemda. Hún flutti nokkru síðar til Danmerkur, greindist með leghálskrabbamein árið 2015 og fjarlægja þurfti leg hennar.

Þegar málefni Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins komust í hámæli í haust hafði hún samband við Leitarstöðina og bað um að sjö ára gamalt sýni hennar yrði endurskoðað. Það var gert og í ljós komu frumubreytingar sem geta leitt til krabbameins. Hún spurði hvers vegna hún hefði ekki verið látin vita á sínum tíma og fékk þau svör að ekki hefði náðst í hana. 

„Sem varð til þess að hún getur ekki eignast börn í dag og hún hafði hugmyndir um að ættleiða börn sem hún getur ekki gert því hún er í áhættuhópi,“ segir Sævar.

Hann segir að of snemmt sé að segja til um hvort farið verði fram á skaðabætur. „En ég geri ráð fyrir í einhverjum tilvika að það verði gert,“ segir Sævar.

Greint var frá því á  vef Krabbameinsfélagsins í gær að endurskoðun sýna, sem ráðist var í í kjölfar alvarlegs atviks við skimun Leitarstöðvarinnar árið 2018, væri nú lokið. Alls voru 4.950 sýni endurskoðuð, en upphaflega var gert ráð fyrir að endurskoða þyrfti 6.000 sýni.

209 konur voru kallaðar inn til frekari skoðunar, eða 4,2%.