Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Donald og Melania Trump smituð af kórónuveirunni

epa08706558 US President Donald J. Trump and First lady Melania Trump wave to supporters as they walk across the South Lawn to Marine One at the White House in Washington, DC, USA, 29 September 2020. Trump is traveling to participate in the First Presidential Debate against former Vice President Joe Biden in Cleveland, Ohio.  EPA-EFE/KEN CEDENO / POOL
 Mynd: epa
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, greindi frá því á Twitter rétt fyrir klukkan fimm í morgun að íslenskum tíma að hann og kona hans, Melania, hefðu greinst með kórónuveirusmit. Trump greindi frá því í gærkvöld að þau hjónin hefðu farið í skimun fyrir COVID-19 eftir að einn af nánustu ráðgjöfum hans greindist með kórónuveiruna.

Í viðtali á Fox-fréttastöðinni í gærkvöld staðfesti forsetinn að Hope Hicks, fyrrverandi samskiptastjóri forsetaembættisins og nú einn helsti ráðgjafi hans í almannatengslamálum, hefði greinst með veiruna. Sagðist hann ekki vita hvort hann væri smitaður eða hvort hann færi í sóttkví, þau hjónin hefðu einfaldlega farið í sýnatöku og biðu þess sem verða vildi.

Nokkru eftir að viðtalinu lauk tilkynnti Trump á Twitter að þau Melania hefðu ákveðið að fara í sjálfskipaða sóttkví þar til niðurstöðurnar berast.  Þær bárust svo seint á fimmta tímanum í nótt að íslenskum tíma og reyndust jákvæðar. 

„Í kvöld greindumst við [forsetafrúin] með COVID-19-smit. Við hefjum einangrun og bataferli nú þegar. Við munum komast í gegnum þetta SAMAN!“ skrifar forsetinn. Kosningateymi Trumps hefur þegar tilkynnt að fyrirhuguðum kosningafundi hans Í Flórída hafi verið aflýst. 

Gegnir áfram embættisskyldum

Forsetinn mun gegna embættisskyldum sínum áfram þótt í einangrun sé, að minnsta kosti fyrst um sinn, enda einkennalaus og með óskerta starfskrafta. Þetta segir læknir Trumps, Sean Conley, í yfirlýsingu. Hjónin séu „bæði frísk á þessari stundu og hyggjast halda sig heima við meðan á bataferlinu stendur," segir læknirinn, sem væntir þess að „forsetinn muni halda áfram að sinna embættisskyldum sínum án nokkurrar röskunar á meðan hann er að ná sér." 

Verðbréfavísitalan lækkaði

fréttirnar af því að forsetinn hefði greinst með COVID-19 höfðu óðara þau áhrif í kauphöllum vestra að verðbréfavísitalan lækkaði, DOW-Jones vísitalan fór niður um 1,7 prósent og Standard og Poors 500 niður um 1,6 prósent. Og austur í Japan hækkaði jenið gagnvart Bandaríkjadal. 

Náinn ráðgjafi og oft með í för

Hicks hefur fylgt forsetanum á fjölmörgum ferðum hans að undanförnu. Meðal annars flaug hún með honum í forsetaþotunni til Cleveland á þriðjudag, þar sem fyrstu kappræður þeirra Trumps og Bidens voru haldnar, og með forsetaþyrlunni á kosningafund í Minnesota á miðvikudag. 

Fréttin hefur verið uppfærð.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV