Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ætla ekki að sekta ökumenn á nagladekkjum

02.10.2020 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Suðurnesjum hefur tilkynnt að ekki standi til að sekta ökumenn bíla sem komnir eru á nagladekk. Þau eru almennt ekki leyfð fyrr en 1. nóvember. Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum hvetur fólk til að fara varlega.

Vegfarendur beðnir að hafa varan á

Veturinn hefur gert vart við sig síðustu daga og vöknuðu landsmenn víða við hálku í morgun. Þrátt fyrir að reglur segi til um að ekki skuli nota nagladekk fyrir 1. nóvember hefur lögreglan gefið út tilkynningu á samfélagsmiðlum þar sem segir að horft verði fram hjá þessum reglum næstu daga. Jóhannes Harðarson er aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum. 

„Eins og kemur fram í tilkynningu frá okkur, má búast við hálku víða og spáð kólnandi veðri. Þá er bara tekin þessi ákvörðun. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrst og við komum þarna í kjölfarið. Vegfarendur eru beðnir að hafa í huga að þrátt fyrir að engin hálka sé á þeim stað þar sem lagt er af stað þá geta skilyrði breyst snögglega,“ segir Jóhannes.

Nú er algengt að bæði á vorin og haustin sé horft fram hjá þessum dagsetningum og þessum reglum. Er einhver ástæða til að fara að endurskoða þessar dagsetningar?

„Já já það mætti örugglega velta því fyrir sér hvort það þyrfti að breyta þessum dagsetningum. En hins vegar hefur þetta svo sem verið þannig að við bara höfum gefið okkur smá svigrúm til þess að breyta þessum reglum.“

Úrkoma næstu daga

Veðurstofan gerir ráð fyrir aukinni úrkomu og að það fari að rigna á öllu austanverðu landinu seint í dag. Á Norðurlandi  eru líkur á snjókomu á fjallvegum í kvöld og í nótt. Það styttir síðan upp í fyrramálið. Spáð er rigningu austast á landinu og skúrum við vesturströndina.