Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Það verður Ísland, uppfærsla 2.0“

01.10.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að þeir sem gerðu lítið úr vanda atvinnulífsins, eða teldu það rangt af stjórnvöldum að standa með fyrirtækjum, skildu einfaldlega ekki hið mikilvæga samband milli verðmætasköpunar í einkageiranum og lífskjara allra landsmanna.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði hins vegar að ríkisstjórnarflokkarnir skildu ekki framtíðina, þessvegna vildu þeir frekar ræða fortíðina.

„Það verður Ísland, uppfærsla 2.0“

Bjarni sagðist staðráðinn í að vinna bug á þeim tímabundna vanda sem faraldurinn, og efnahagsástandið, væri. „Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til að snúa aftur í. Þess vegna er mikilvægt að við gerum það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði,“ sagði hann. 

Hann sagðist vilja næga vinnu, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi. Við þessar aðstæður væri hallarekstur réttlætanlegur til þess að standa með heimilum og styðja fyrirtæki, fjárfesta í tækni og innviðum, hraða orkuskiptum og lækka skatta. 

Mynd: RÚV / RÚV

 

„Við tefldum fram aðgerðum undir merkjum verndar, varna og viðspyrnu í vor, en við verðum líka að sækja fram, verðum að líta á þetta sem tækifæri til að uppfæra Ísland. Tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélag. Það verður Ísland, uppfærsla 2.0,“ sagði Bjarni. 

Ekki lengur í boði að flýja umræðu um framtíðina

Halldóra Mogensen sakaði ríkisstjórnina hins vegar um að vera fasta í fortíðinni. „Hamfarir eins og Covid-faraldurinn krefjast þess að við hugsum fram á veginn og að við völd sé fólk sem skilur mikilvægi þess að taka þátt í mótun framtíðarinnar en fljóta ekki eins og dauðir fiskar í straumi framfara,“ sagði sagði hún. 

Mynd: RÚV / RÚV

Nú þyrfti að ræða borgaralaun af alvöru og ráðast í metnaðarfullar aðgerðir í loftslagsmálum. „Til að Ísland geti orðið fyrirmynd annarra þjóða þarf brýnar aðgerðir langt umfram áform núverandi ríkisstjórnar, enda neitar hún að viðurkenna rót vandans,“ sagði hún. „Ný hagræn hugsun og sjálfbærnihvatar í stað fortíðarþrár mengandi stórfyrirtækja er lykillinn að því að koma hér á alvöru velsældarhagkerfi,“ bætti hún við.