Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stjórnarandstaðan ósátt við fjárlagafrumvarpið

01.10.2020 - 19:34
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Formaður Miðflokksins telur fjárlagafrumvarpið litast af því að kosningar séu framundan. Formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Pírata segja of lítið gert til að bregðast við „sögulegri atvinnukreppu.“

Mörg hundruð milljarða hallarekstur og stóraukin skuldsetning ríkissjóðs einkennir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Fjármálaráðherra segir ekki hafa verið valkost að fara í harkalegan niðurskurð á næsta ári

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar,  sagði í kvöldfréttum RÚV að hún væri ekki andsnúin því að halli ríkissjóðs yrði aukin til að mæta þessari kreppu. Það sem hún hefði áhyggjur af væri að svigrúmið væri ekki notað. Með fjárlagafrumvarpinu væri ríkisstjórnin að viðurkenna að ekki væri verið að taka nógu stór skref og hennar tilfinning væri sú að ríkisstjórnin væri að gefast upp fyrir þessu verkefni. Því þyrfti nýja ríkisstjórn.

Björn Leví Gunnarsson, þingamaður Pírata, nefndi tvö atriði; annars vegar atvinnumálin þar sem honum sýndist fjárlagafrumvarpið ekki vera að skila einhverju gagni því  áfram væri verið að gera ráð fyrir miklu fjármagni í atvinnuleysistryggingar á næstu árum þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hins vegar væri verið að verja milljörðum vegna þess að ríkið næði ekki að uppfylla Parísar-samkomulagið.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði frumvarpið staðfesta það sem hefði verið vitað;  að hér byggju tvær þjóðir í landinu. Ríkisstjórn VG styðji að stór hluti af fátækasta fólkinu fái ekki eina einustu krónu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði það vekja athygli að þótt gert væri ráð fyrir samdrætti á þessu ári en hagvexti um mitt næsta ár væri áfram gert ráð fyrir hallarekstri.  „Það segir mér að þetta frumvarp sé ekki eingöngu viðbrögð við faraldrinum heldur skýrist þetta að einhverju leyti að nú styttist í kosningar.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta sýna að ríkisstjórnin átti sig ekki á raunveruleikanum. Nú sé söguleg atvinnukreppa og ekkert gert til að ráðast í stórar, grænar fjárfestingar til að skapa störf fyrir fólk og lina stöðu þeirra sem eru atvinnulausir. „Það er engin metnaður fram á við.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV