Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sjúklingar með COVID-19 leggjast inn á 12 tíma fresti

Mynd með færslu
 Mynd: Júlíus Sigurjónsson
Svo virðist sem sjúklingar séu að leggjast inn á Landspítalann með COVID-19 á 12 tíma fresti eða tveir sjúklingar á sólarhring. 13 eru nú inniliggjandi á Landspítalnum með sjúkdóminn, þar af tveir í öndunarvél. Af þeim rúmlega 580 sem eru í eftirliti hjá COVID-göngudeildinni eru þrír flokkaðir rauðir sem þýðir að þeir eru líklegir til að leggjast inn og fjórtán gulir . Það eru þeir sem eru með miðlungseinkenni.

Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Ákveðin holskefla væri nú að skella á spítalanum vegna farsóttarinnar, róðurinn væri að þyngjast og þróun mála væri svipuð og í vor.  Það væri þó jákvætt að það væri fækka um hundrað hjá COVID-göngudeildinni en það væri fólk sem hefði lítil eða engin einkenni og væri að jafna sig. Páll sagði bylgjuna nú ekki vera minni en þá í vor og hvatti sérhæft heilbrigðisstarfsfólk til að gefa kost á sér. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist ekki telja ástæðu til að herða aðgerðir nú. Svo virtist sem nýgreindum smitum væri að fækka þótt faraldurinn virtist ganga hægar niður en kannski hafði verið reiknað með. Aðgerðir yfirvalda væru í sífelldri endurskoðun og þar væri einkum horft til þróunar faraldursins og svo hvernig heilbrigðiskerfið væri í stakk búið til að takast á við farsóttina.

Hann benti á að hertar samfélagslegar aðgerðir gætu valdið miklum afleiðingum. Ef smitum fjölgaði hratt og heilbrigðiskerfið gæti ekki annað þeim fjölda sem þyrfti á innlögn að halda þyrfti að grípa til aðgerða. Árangurinn af þeim sæist þó ekki fyrr en eftir tvær til þrjár vikur.

Hann sagðist þó vera á „á nippinu“ að draga upp tillögur um hertar aðgerðir upp úr skúffu sinni og það þyrfti lítið út af bregða til að senda þær til heilbrigðisráðherra.

Þórólfur sagði ljóst að veiran væri dreifðari en áður. Áfram væri þetta þeir tveir veirustofnar sem greinst hefðu hér á landi að undanförnu.  Hann sagði að nú væri mikilvægt fyrir fólk að standa saman, fara eftir sóttvarnaráðstöfunum sem líklega yrðu í gildi næstu mánuði.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV