Rúnar Kristins: „Nokkur orð sem ég hefði átt að sleppa“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Rúnar Kristins: „Nokkur orð sem ég hefði átt að sleppa“

01.10.2020 - 21:47
Rúnar Kristinsson vildi lítið segja um þá ákvörðun framkvæmdastjóra KSÍ að vísa ummælum hans eftir leik KR og Fylkis síðastliðinn sunnudag eftir sigur KR á Víkingi í kvöld. Hann bað Ólaf Inga Skúlason þó afsökunar á sumu sem hann sagði.

KR lagði Víking 2-0 í Víkinni í kvöld. Nánar um þann leik má lesa hér.

„Við áttum undir högg að sækja í seinni hálfleik en vörðumst ágætlega. Víkingar eru góðir í fótbolta og spila hraðan og flottan fótbolta. Að sama skapi taka þeir oft sénsa og mér finnst að við eigum að refsa þeim oftar. 2-0 sigur er mjög gott á útivelli,“ sagði Rúnar.

„Þetta er góður sigur fyrir okkur í dag og gefur okkur vonandi sjálfstraust inn í næsta verkefni sem er inni í höllinni í Kópavogi á móti HK. Þetta er búið að vera svolítið upp og niður og við erum vonandi á réttri leið núna aftur.“

Var sannleikskorn í mörgu

Fyrr í dag sendu Fylkismenn hins vegar frá sér yfirlýsingu vegna orða Rúnars eftir leik liðanna á sunnudag. Fylkir vann þann leik 2-1 eftir að hafa fengið víti í uppbótartíma þegar Beitir Ólafsson braut á Ólafi Inga Skúlasyni þegar boltinn var fjarri. Beitir fékk að auki rautt spjald. Ummælin og yfirlýsing Fylkis má lesa hér.

„Ég vil ekki tjá mig um það núna. Ég er búinn að vera að reyna að einbeita mér að þessum leik í dag og hef haft í nógu öðru snúast þannig að ég ætla að bíða með að svara fyrir það,“ sagði Rúnar í viðtali við RÚV eftir leik.

En stendur hann við ummæli sunnudagsins?

„Ég sagði nokkur orð sem ég hefði átt að sleppa og ég get beðið hann afsökunar á því hér og nú, hann Ólaf Inga. En það er margt, og mörg sannleikskorn í því sem ég sagði líka,“ sagði Rúnar Kristinsson.

Áfram hjá KR næstu þrjú ár

Það var í nógu að snúast hjá Rúnari í dag því knattspyrnudeild KR sendi frá sér tilkynningu síðdegis um að hann hefði gert nýjan þriggja ára samning við félagið.

„Ég er mjög ánægður í KR og ef þeir eru ánægðir með mig og vilja hafa mig áfram þá er ekkert starf betra á Íslandi en að vera þjálfari KR.“

Viðtal við Rúnar frá því í kvöld má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Mikilvægur sigur KR-inga

Fótbolti

Rúnar áfram hjá KR næstu þrjú ár

Fótbolti

KSÍ vísar ummælum Rúnars til aganefndar

Fótbolti

Fylkismönnum verulega brugðið vegna ummæla Rúnars