Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lagafrumvarp dómsmálaráðherra „stór vonbrigði“

01.10.2020 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
„Íslenskt samfélag á ekki að reka börn, eða barnafjölskyldur af erlendum uppruna, úr landi og meiri hluti almennings vill ekki þessa hörku,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. „Það eru því stór vonbrigði að sjá lagafrumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga á þingmálaskránni. Frumvarp sem er harðlega gagnrýnt af mannréttindasamtökum. Við þurfum meiri mannúð í þennan málaflokk,“ sagði hún. 
Mynd: rúv / rúv

Andrés Ingi Jónsson tók í sama streng og sagðist fagna því að Katrín Jakobsdóttir hefði nefnt í stefnuræðu sinni að bæta þyrfti aðferðafræði við mat á hagsmunum barna á flótta. Frumvarp dómsmálaráðherra um að „henda fólki hraðar úr landi“ með því að auka skilvirkni í afgreiðslu mála umsækjenda um alþjóðlega vernd vekti hins vegar athygli. „Börn á flótta eiga að fá að vera hér og dafna. En Ísland vantar líka hreinlega fleira fólk, innflytjendur af öllum gerðum,“ sagði hann. 

Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna í loftslagsmálum

Þau lögðu bæði áherslu á loftslagsmálin. Andrés sagði allt of litla áherslu vera lagða á loftslagsmál. Hann bar Ísland saman við Noreg og sagði að Norðmenn hefðu til dæmis brugðist við ákalli Sameinuðu þjóðanna í vor með því að hækka markmið sitt um samdrátt í losun úr 40 prósentum í 50 prósent. „Umhverfisráðherra Íslands lét hins vegar í vikunni hafa eftir sér að hér á landi myndu stjórnvöld setja markið hærra á komandi árum. ” 

Mynd: rúv / rúv

Rósa Björk sagði að sóknin þyrfti að vera græn og að ráðast þyrfti í græna atvinnustefnu. Gera þyrfti betur í orkuskiptum, sérstaklega til að standa undir skuldbindingum Parísarsáttmálans. Hún talaði líka um fjármögnun heilbrigðiskerfisins og sagði að núna þyrfti heilbrigðiskerfið ekki á áframhaldandi aðhaldskröfu að halda heldur innspýtingu, langt umfram það sem þegar hefði verið boðað. „Þannig fetum við í spor nágrannaþjóða okkar sem hafa sett mun hærri viðbótarfjárhæðir en við í að styrkja heilbrigðiskerfin í þessu mikla álagi,“ sagði hún. 

Dýpri gjá milli ríkra og fátækra

„Hér erum við að horfa upp á gjána verða æ dýpri og gleiðari milli ríkra og fátækt. Í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna hefur fátæktin vaxið alveg í takt við áfallið sem við höfum orðið fyrir af völdum þessarar veiru,“ sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins í svari sínu við stefnuræðu forseta.

Mynd: rúv / rúv

Hún sagði að áður en Katrín Jakobsdóttir hefði orðið forsætisráðherra hefði hún sagt á Alþingi að það að láta fátækt fólk bíða jafngilti því að neita því um réttlæti. Nú væri fátækt fólk látið bíða. 

„Við sjáum lengri raðir fyrir utan hjálparstofnanir þar sem svangir biðja um mat,“ sagði Inga og bætti við að það væri rétt að efnahagshjólin þyrftu að snúast en mikilvægt væri að huga að þjóðinni í heild.