KSÍ vísar ummælum Rúnars til aganefndar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KSÍ vísar ummælum Rúnars til aganefndar

01.10.2020 - 14:06
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, hefur vísað ummælum Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, eftir leik KR og Fylkis á sunnudag til aga- og úrskurðarnefndar sambandsins.

Klara staðfesti þetta í samtali við RÚV í dag.

Samkvæmt reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarnefnd sambandsins hvílir sá réttur hjá framkvæmdastjóra að vísa atvikum sem geta skaðað ímynd knattspyrnunnar til aga- og úrskurðarnefndar. 

Í 21. reglugerðarinnar segir:

21.1. Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa til aga- og úrskurðarnefndar atvikum sem skaðað geta ímynd knattspyrnunnar eða þeirra sem þátt taka í leiknum. Slík atvik hafa þá ekki komið fram í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanns á leiknum en geta verið hvers kyns ósæmileg framkoma á leikstað eða á annan hátt opinberlega.

21.2. Framkvæmdastjóri KSÍ skal skila greinargerð til nefndarinnar ásamt gögnum máli sínu til stuðnings og skal fara með slík mál eins og um kærumál sé að ræða, eins og við getur átt.

Fylkismenn voru mjög ósáttir við ummæli Rúnars að leik loknum á sunnudag og sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins fyrr í dag.

Nánar um ummælin og yfirlýsingu Fylkis má lesa hér.