Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kórónuveirufaraldurinn kostar ríkissjóð 192 milljarða

01.10.2020 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
264 milljarða halli verður á rekstri ríkissjóðs, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem lagt var fram í dag. Tekjur ríkissjóðs verða 772 milljarða en útgjöld rúmlega þúsund milljarðar. Áhrifin af völdum kórónuveirufaraldursins eru metin á 192 milljarða. „Ríkisfjármálum verður áfram beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu,“ segir á vef fjármálaráðuneytisins.

Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins að samdráttur skatttekna vegi þyngst vegna minni umsvifa eða samtals 89 milljarðar.  Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið 600 milljarðar, segir ráðuneytið.  Stefnt er að því að stöðva skuldasöfnun eftir fimm ár og rjúfa þar „vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar.“

Tekjur ríkissjóðs lækki einnig vegna aðgerða til að bregðast við farsóttinni. Atvinnuleysisbætur hækka um 23 milljarða og arðgreiðslur um 27 milljarða.  

Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætluð um 35 milljarðar. „Þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar.“

Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins að áætlað sé að verja 15 milljörðum til heilbrigðismála, þar af 7 milljörðum til byggingu nýs Landspítala en alls verður tólf milljörðum varið til framkvæmdarinnar. Lækka á skatta um 34 milljarða á næsta ári og er vonast til að ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækki um rúmlega 120 þúsund krónur á ári.  Hækkun persónuafsláttar á að skila heimilum landsins um 2 milljörðum á ári.

Þá er gert ráð fyrir að frítekjumark erfðafjárskatts verði hækkað og að nýir og auknir skattstyrkir til að styðja við félög sem starfa í þágu almannaheilla í svokölluðum þriðja geira kosti ríkissjóð um 2,1 milljarð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV