
Kjaraviðræður grunnskólakennara til ríkissáttasemjara
Þorgerður segir að samninganefnd félagsins hafi í gær lagt til við Samband íslenskra sveitarfélaga lausn um að hækkun launa yrði í takt við lífskjarasamninginn og samningstími yrði til 30. júní á næsta ári. „Við fórum ekki fram á neina hækkun umfram þá krónutöluhækkun sem lífskjarasamningurinn kveður á um,“ segir hún.
Í lausninni hafi einnig falist að innleiðing starfsmats fyrir félagsmenn tæki gildi 1. ágúst á næsta ári og umsamin bókun um sveigjanlegt starfsumhverfi kennara, sem samið hafi verið um í viðræðuáætlun, yrði gerð að grein í kjarasamningnum. Þorgerður segir að þau hafi farið fram á það í því skyni að tryggja þá mikilvægu breytingu.
„Við lögðumst yfir þetta og lögðum fram lausn í málinu sem við töldum að væri eitthvað sem við gætum fallist á. Hún fólst í þessum þremur punktum og þeir byggja aðeins á því sem áður hefur verið rætt,“ segir Þorgerður.
Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði lausninni, sleit viðræðum og vísaði kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara. Þorgerður segir að síðasta krafan, um að bókunin um sveigjanlegt starfsumhverfi yrði færð inn í kjarasamninginn, hafi í raun haft úrslitaáhrif í ákvörðun Sambands íslenskra sveitarfélaga. Grunnskólakennarar hafi talið bókunina forsendu fyrir kjarasamningi.