Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hæstiréttur klofinn í nauðgunarmáli

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Hæstiréttur klofnaði þegar kveðin var upp ómerking á dómi Landsréttar. Konu var gefið að sök að hafa átt þátt í því að sambýlismaður hennar nauðgaði konu með þroskaskerðingu. Maðurinn lést áður en málið var tekið til aðalmeðferðar í héraðsdómi.

Hæstiréttur var skipaður fimm dómurum og skiluðu tveir þeirra sératkvæði. Dómararnir tveir töldu að Hæstiréttur ætti að staðfesta niðurstöðu Landréttar, sem sýknaði konuna.

Meirihluti Hæstaréttar vísaði málinu hins vegar aftur til Landsréttar. Konan var sakfelld í héraðsdómi og henni gert að sæta tveggja ára fangelsi auk þess að greiða brotaþola eina milljón í miskabætur auk málskostnaðar. Málinu var áfrýjað til Landréttar sem sýknaði konuna af kröfum ákæruvaldsins. Ákæruvaldið skaut málinu hins vegar til Hæstaréttar sem ómerkti dóm Landsréttar og vísaði því aftur þangað.

Bæði maðurinn og konan neituðu sök við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi í lok mars árið 2018. Maðurinn lést í apríl sama ár áður en aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Vestfjarða haustið 2018. 

Í séráliti dómaranna tveggja kemur meðal annars fram að í dómi Landsréttar hafi ákærða verið sýknuð af ákærunni. Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af misvísandi framburði brotaþola væri ósannað að konan hefði gefið henni sljóvgandi töflu. Kæmi því einungis til skoðunar hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild í nauðgun með því að hafa horft á meðan maðurinn braut gegn brotaþola. Til að sakfellt yrði fyrir slíkt athafnaleysi, sem hlutdeild í nauðgunarbroti, yrði að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hefði áður átt virkan þátt í því að að koma brotaþola í þá stöðu að hann gat brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi hefði brotaþoli aftur á móti sagt að það hefði verið maðurinn, en ekki konan, sem hefði haft samband við sig, boðið henni heim og látið aka sér þangað. Yrði konan því ekki sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á manninn brjóta á brotaþola.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV