Enn eitt jafnteflið hjá KA

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Enn eitt jafnteflið hjá KA

01.10.2020 - 19:50
Einum leik er lokið í kvöld í Pepsi Max deild karla í fótbolta. Breiðablik og KA skildu jöfn á Kópavogsvelli.

KA komst yfir á 18. mínútu þegar Sveinn Margeir Hauksson skoraði laglegt mark með skoti utan teigs eftir að sending Antons Ara Einarssonar, markvarðar Breiðabliks, barst til hans.

1-0 stóð í leikhléi en Blikar voru fljótir að jafna eftir hlé. Viktor Karl Einarsson skoraði með föstu skoti á 53. mínútu og þar við sat.

Breiðablik er eftir leikinn með 28 stig, jafnmörg og Fylkir í 3.-4. sæti. KA er með 20 stig í 9. sæti en þetta var ellefta jafntefli KA í 17 leikjum í sumar. Jafnteflismetið í 12 liða efstu deild eru 12 jafntefli og KA nálgast það því óðfluga. Eftir að Arnar Grétarsson tók við KA 15. júlí hefur liðið unnið þrjá leiki, gert níu jafntefli og aðeins tapað einum leik.