Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Víða hálka á höfuðborgarsvæðinu í morgun

30.09.2020 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hálka var víða á höfuðborgarsvæðinu í morgun en hún á eftir að bráðna þegar sól fer hækkandi. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Töluvert hefur rignt austantil á landinu en á miðnætti mældist úrkoma í Neskaupstað nærri 60 millimetrar.

Í hugleiðingunum segir að dálítil væta hafa verið á höfuðborgarsvæðinu í gær en svo hafi stytt upp og létt til í gærkvöld.

„Frost fór niður í tæp þrjú stig í Víðidal í nótt en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var hitinn frá frostmarki upp í þrjú stig, en það vill svo til að mælt er í tveggja metra hæð sem er ekki endilega lýsandi fyrir hita við yfirborð en þar frysti líklega víða.“

Og þar sem yfirborðið hafi verið blautt fyrir hafi víða mátt finna hálku á höfuðborgarsvæðinu. Hún eigi þó eftir að bráðna með morgninum þegar sól fer hækkandi. 

Annars eru veðurhorfurnar þær að það verður fremur hæg suðlæg eða breytileg átt í dag, skýjað með köflum og stöku skúrir en strekkings eða allhvöss austlæg átt austantil á landinu og rigningu. „Töluvert hefur rignt í
nótt á þeim slóðum, tæpir 60 mm hafa mælst í Neskaupstað frá miðnætti, en það styttir upp á Austfjörðum í í kvöld.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV