Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Uppsagnirnar eru algjör varúðarráðstöfun“ 

30.09.2020 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öllum fjórum starfsmönnum Samtakanna ‘78 hefur verið sagt upp. Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að uppsagnirnar séu algjör varúðarráðstöfun. Samningar samtakanna við forsætisráðuneytið og Reykjavíkurborg renna út um áramótin og Daníel segir að ráðist hafi verið í uppsagnirnar í því skyni að baktryggja félagið gegn því að skulda starfsfólki laun eftir áramót ef til þess kæmi að nýir samningar næðust ekki.  

Vísir.is greindi fyrst frá uppsögnunum. 

Viss um að samningar náist fljótt

„En ég er staðráðinn í því að samningar náist. Viðræður við Reykjavíkurborg eru nú þegar hafnar og við höfum átt í góðu samstarfi við forsætisráðuneytið,“ segir Daníel í samtali við fréttastofu.

„Allir starfsmennirnir vinna uppsagnarfrestinn, meðal annars ég,“ segir Daníel. „Svo vonumst við til þess að geta dregið uppsagnirnar til baka þegar nýir samningar nást,“ bætir hann við. Auk starfsmannanna fjögurra starfa fyrir samtökin 10 verktakar og að sögn Daníels hefur þeim ekki verið sagt upp störfum.  

Vonast eftir víðtækari samningum við ríkið

Samtökin vonast eftir víðtækari samningum við ríkið en áður. „Samtökin hafa verið að fá allt of lág framlög, sérstaklega ef maður miðar við hin Norðurlöndin. Við höfum verið að þrýsta á forsætisráðuneytið að gera við okkur lengri samninga en til eins árs eins og hefur verið. Svo viljum við fá fleiri ráðuneyti inn í samningana okkar því Samtökin ‘78 hafa svo víðtæka starfsemi,“ segir Daníel.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV