Uppfærður listi er skellur fyrir miðaldra rokkaðdáendur

Mynd: EPA-EFE / EPA

Uppfærður listi er skellur fyrir miðaldra rokkaðdáendur

30.09.2020 - 13:25

Höfundar

Nýlega uppfærði tímaritið Rolling Stone lista sinn yfir 500 bestu plötur allra tíma. Eins og alltaf þegar listinn er uppfærður vöktu breytingarnar mikið umtal og deilur og þykir listinn vera skellur fyrir miðaldra rokkaðdáendur.

Arnar Eggert Thoroddsen, doktor í tónlistarfræðum, birtir hugleiðingar sínar um uppfærsluna á listanum á Facebook-síðu sinni og bendir á að platan Sgt. Pepper með Bítlunum falli niður í 24. sæti. Hún hefur yfirleitt verið mun ofar á eldri útgáfum listans. Þá er efsta plata Davids Bowie á listanum í 40. sæti. 

Að sögn Arnars Eggerts hafa miðaldra rokkaðdáendur vanist því að plötur með Bítlunum, U2, Bob Dylan og Rolling Stones séu ávallt ofarlega á listum yfir bestu plötur allra tíma. Aðdáendur þeirra hafi vanist því að þetta séu taldar bestu plöturnar og verða svo fyrir áfalli þegar þessar sömu plötur detta niður þegar listinn er uppfærður. Margir velti fyrir sér hvort þeir hafi haft rangt fyrir sér öll þessi ár. 

Á nýja listanum eru fleiri plötur með konum. Platan Blue með Joni Mitchell er í þriðja sæti. „Ég held að ég hafi aldrei séð konu svona ofarlega á svona lista, þetta hafa alltaf verið mjög karllægir listar,” segir Arnar Eggert. Hann bendir á að tímaritið hafi ekki hent öllum gömlu plötunum af listanum heldur aðeins fært þær neðar. „Ég fór líka að skoða aðeins listann, hann er lúmskur. Allar Bítlaplöturnar og Dylan-plöturnar eru þarna en það er búið að setja þær neðar. Þetta er mjög amerískur listi, það er mikið hipphopp, það er verið að henda meira kántrý inn og sálartónlist," segir Arnar Eggert og bendir á að ætli blaðið sér að lifa af næstu áratugi sé mikilvægt að tala til fólks sem er enn á lífi og því skiljanlegt að yngri plötur séu nú á listanum. 

Tíu bestu plötur allra tíma að mati Rolling Stone eru:

1. Marvin Gaye – What’s Going On (1971)
2. The Beach Boys –Pets Sounds (1966)
3. Joni Mitchell – Blue (1971)
4. Stevie Wonder – Songs in the Key of Life (1976)
5. The Beatles – Abbey Road (1969)
6. Nirvana – Nevermind (1991)
7. Fleetwood Mac – Rumours (1977)
8. Prince and the Revolution – Purple Rain (1984)
9. Bob Dylan – Blood on the Tracks (1975)
10. Lauryn Hill – The Miseducation of Lauryn Hill (1998)

Rætt var við Arnar Eggert Thoroddsen í Morgunútvarpinu á Rás 2.