Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skerða snjómokstur á Akureyri til að spara

30.09.2020 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Akureyrarbær stefnir á að spara allt að fimmtíu milljónir króna með því að skerða snjómokstur í vetur. Formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að heimsfaraldurinn hafi sýnt að ekki sé nauðsynlegt fyrir alla að komast leiðar sinnar klukkan átta alla morgna.

Liður í að rétta af hallarekstur

Ný bæjarstjórn á Akureyri hefur gert með sér samstarfssáttmála um aðgerðir til að rétta af hallarekstur bæjarins. Gripið verður til róttækra sparnaðaraðgerða og er ein þeirra að draga úr kostnaði við snjómokstur. Andri Teitsson er formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrar.

Seinka mokstri og fækka skiptum

„Það sem að við getum gert í snjómokstrinum er að til dæmis byrja aðeins seinna að moka þegar fer að snjóa. Moka einu sinni en ekki tvisvar, svona í sömu hríðinni, og við ætlum að leggja áherslu á að moka strætóleiðir og göngustíga þannig að flestir eða allir munu eiga kost á að komast til og frá vinnu eða skóla eftir þeim leiðum þó það sé ekki búið að moka íbúðagöturnar. En ég vil líka benda á það að COVID hefur kennt okkur að það þurfa ekki alveg allir nauðsynlega að komast leiðar sinnar akkúrat klukkan átta alla daga. Það er sveigjanleiki hjá töluvert mörgum hópum og við eigum að reyna að nota okkur það meira," segir Andri. 

Markmiðið að spara 30-50 milljónir króna

Allt stefnir í fordæmalausan hallarekstur hjá Akureyrarbæ og gæti halli aðalsjóðs bæjarins orðið allt að þrír milljarðar króna. Niðurskurður á snjómokstri er einn liður í að brúa þetta bil. 

„Á þessu ári erum við að verja sennilega 220 milljónum í snjómokstur og hálkuvarnir og við myndum gjarnan vilja reyna að spara þrjátíu til fimmtíu milljónir."