Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sex smit á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi

30.09.2020 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Tveir starfsmenn og fjórir íbúar á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi hafa greinst með kórónuveiruna. Allir íbúar deildarinnar þar sem smitið kom upp eru í sóttkví, auk fimm starfsmanna, samtals yfir tuttugu manns. Ástandið gæti varað í þrjár til fjórar vikur.

Fyrsta smitið kom upp hjá starfsmanni í síðustu viku og í kjölfarið voru bæði íbúar og starfsmenn skimaðir fyrir veirunni. Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnastjóri hjúkrunar– og gæðamála hjá Eir, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að gripið hafi verið til umfangsmikilla aðgerða.

Fólk fyllist mikilli skelfingu

„Fólk fyllist að sjálfsögðu mikilli skelfingu. Og þá þarf að grípa til viðbraga samstundis. Við fengum einn starfsmann sem var svo óheppin að greinast og í kjölfarið fórum við að skima í kringum starfsmanninn. Og fundum þá íbúa hjá okkur sem var einkennalaus með kórónuveiruna,“ segir hún.

Þegar enn fleiri hafi verið skimaðir kom í ljós að fleiri íbúar voru smitaðir.

„Þannig að við erum sem sagt með fjóra íbúa, sem enn sem komið er eru einkennalausir eða mjög einkennalitlir, og tvo starfsmenn.“

Settu upp sérstaka deild fyrir smitaða

Að sögn Þórdísar Huldu ástandið gæti varað í þrjár til fjórar vikur. Talsverðar breytingar voru gerðar á starfsemi heimilisins. Til dæmis var sett upp sérstök COVID-deild.

„Í öðru húsi, þar sem dagdeildin okkar hefur verið til húsa, gátum við sett upp COVID- deild. Það er að segja  þá erum við með aðstöðu til að fara með sýkta burt frá deildinni og koma þeim öllum saman á einn stað með rosalega góða aðstöðu. Þannig þá geta þau verið saman, þau geta haft setustofu og borðstofu og svalir. Svo þar er svona rýmra og þægilegra. Fólk fær auðvitað styrk í hvort öðru líka því það þarf ekki að einagra einn og einn alveg sérstaklega,“ segir hún.

Ekki miklar heimtur úr viðbragðssveitinni - hvetur fólk til að hafa samband

Þórdís segir að smitin séu mikið högg fyrir starfsemina þar sem fjöldi starfsmanna sé í sóttkví.

„Við erum auðvitað í vandræðum með fólk og erum núna að klóra okkur í gegnum þessa lista viðbragðssveitarinnar. En það eru ekki miklar heimtur þar svo við erum alveg að fara að detta í vandræði. Þannig ef að fólk hefur áhuga og vill bjóða sig fram þá bara endilega hafa samband við okkur á Eir,“ segir Þórdís. 

„Svo er kannski fólk ekki alveg af fullum hug finnst manni á þessum listum akkúrat núna. Það var meira í vor, þegar við héldum að þetta væri kannski eitthvað sem gengi yfir og allt yrði gott aftur, það bjóst kannski enginn við þessu. Þannig að auðvitað er fólkið á þessum listum í öðrum vinnum og á kannski erfiðara um vik með að komast frá núna. Það er kannski ekki eins mikill skilningur á þörfinni. En í eðli sínu eru hjúkrunarheimili ekki svakalega vel mönnuð í grunninn. Þannig þetta er svolítið erfitt fyrir okkur.“