Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ræða möguleika á frekara samstarfi eða sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Sveitarfélög við Eyjafjörð ræða um þessar mundir saman um hvaða möguleikar felist í frekara samstarfi eða sameiningu. Sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps segir afar mikilvægt að koma fram sem sterk heild. Gott samtal skipti miklu máli hvort sem það leiði til sameiningar eða ekki.

Svalbarðsstrandarhreppur átti frumkvæði að fundi með Eyjafjarðarsveit í síðustu viku um sameiginlega hagsmuni, aukið samstarf eða sameiningarmál og hvað slíkt myndi þýða fyrir sveitarfélögin.

Eðlilegt að ræða við næstu nágranna

„Við vorum með íbúafund hérna í vetur þar sem við vorum að ræða um framtíðarmyndir hvað varðar sameiningarmál,“ segir Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandahrepps. „Og það er ósköp eðlilegt að við byrjum að tala við næstu nágranna okkar, hvort sem það er Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit eða Grýtubakkahreppur." 

Til komið vegna breytinga á lögum um stærð sveitarfélaga

Björg segir að þessi vinna sé til komin vegna fyrirhugaðrar breytingar á lögum um stærð sveitarfélaga, en í þremur þessarra sveitarfélaga eru íbúar færri en þúsund. Og komi til sameingar segir Björg mikilvægt að þekkja hver staða sveitarfélaganna er. Hvort sem það eru innviðir, atvinnumál, skólamál, húsnæðismál eða íbúaþróun. 

Farið yfir hvernig sameiningaferli gæti litið út 

Tveir ráðgjafar frá RR ráðgjöf voru á fundinum, en þeir hafa tekið að sér ýmis verkefni við sameiningu sveitarfélaga víða um land. „Þarna var verið að fara yfir, bara praktískt, hvernig þarf maður að bera sig að til að halda áfram ef vilji eða áhugi er á sameiningu," segir Björg.

„Þurfum að koma saman sem sterk heild“

Hún segir greinilegan vilja til viðræðna á þessu svæði og þar sé gott að byrja. Því burtséð frá þúsund íbúa markinu, felist miklir hagsmunir í því að kjörnir fulltrúar ræði saman og eigi gott samstarf. „Hvort sem það er í afmörkuðum verkefnum eða til að horfa á svæðið sem heild. Við erum eitt atvinnusvæði og við þurfum að koma fram sem sterk heild og við erum í samkeppni við mun stærri svæði og þá skiptir miklu máli að það sé gott samtal á milli."