Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lífeyrissjóðurinn Gildi stærsti hluthafi í Icelandair

30.09.2020 - 22:04
Mynd: RÚV / RÚV
Lífeyrissjóðurinn Gildi er orðinn stærsti hluthafinn í Icelandair Group. Þetta kemur fram á leiðréttum lista yfir tuttugu stærstu hluthafana sem sendur var út rétt í þessu. Á lista sem sendur var út fyrr í kvöld var Landsbankinn stærsti hluthafinn. Tuttugu stærstu hluthafarnir eiga samtals minna en fyrir hlutafjárútboðið um miðjan mánuðinn.

Fyrr í kvöld var greint frá því að ríkisbankarnir tveir ættu samtals 14 prósenta hlut í félaginu en eftir að listinn var uppfærður er ljóst að bankarnir eiga samtals 11 prósent. 

Gildi á 6,61 prósents hlut í félaginu, Íslandsbanki er næststærstur með 6,55 prósenta hlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild þriðji stærsti hluthafinn með 6,24 prósenta hlut. 

Eignarhald dreifðara en fyrir útboð

Eignaraðild er dreifðari nú en fyrir útboð. Tuttugu stærstu áttu 74 prósent fyrir útboð en eiga nú 54 prósent samtals. 

Þótt flestir séu áfram á listanum breytist eignarhaldið. Lífeyrissjóður verslunarmanna fer úr fyrsta í sjötta sæti, Par Investment úr öðru í tíunda sæti, Gildi lífeyrissjóður fer hins vegar úr þriðja í fyrsta sætið en samt lækkar hlutur sjóðsins. 

Engir bankar voru á fyrri listanum. Nú eru þeir fjórir. Íslandsbanki á mest sex og hálft prósent og er annar stærsti hluthafinn, Landsbankinn er í fimmta sæti með 4,3 prósent, Kvika banki í áttunda með tæp tvö og Arion banki í þrettánda, líka með tæp tvö prósent. 

Aðeins eitt félag einstaklings er á listanum núna. Sólvöllur ehf, félag Pálma Haraldssonar fyrrverandi eiganda Fons, á nú tæp tvö prósent og er níundi stærsti hluthafinn.