Kappræðurnar gætu veikt Biden

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Flestir eru sammála um að fyrstu kappræður frambjóðendanna í bandarísku forsetakosningunum í nótt hafi verið ómálefnalegar, rætnar og háværar, og hvorugur þátttakandinn hafi grætt á þeim. Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur telur að þær geti helst orðið til þess að fæla óákveðna kjósendur frá kjörstað. Það sé Joe Biden og Demókrötum í óhag.

 

„Ég held að flestir séu á einu máli um að þetta hafi ekki verið þátttakendum til sóma,“ segir Silja Bára. „Það besta sem frambjóðendurnir geta vonað er að þetta muni ekki hafa mikil áhrif á fylgi þeirra. Hvorugur stóð sig þannig að hann gæti gert sér vonir um að græða á þessu.“

Frammistaða Trumps kom ekki mörgum á óvart. Hann lék þann leik sem hann er þekktur fyrir, að taka umræðuna yfir, drepa erfiðum spurningum á dreif og grípa í sífellu fram í fyrir andstæðingi sínum og reyna að ná honum yfir á sinn vígvöll. Frammistöðu Joes Biden var hinsvegar beðið með óþreyju. Hann hafði það verkefni að hefja sig yfir Trump og sannfæra kjósendur um að hann væri betri og málefnalegri kostur í forsetaembættið. Silja Bára telur honum ekki hafa tekist það: 

„Hann var að reyna það en mér fannst hann ekki ná flugi.  Hann var greinilega búinn að æfa sig í ákveðnum frösum, að horfa beint í myndavélina og ávarpa þig sem einstakling sem sætir heima og værir að horfa: „Þú sem hefur misst nákominn ættingja í þessum faraldri, átt þú mat á borðið?“ 

Biden varð stressaður

Biden hafi fipast mikið. Hann hafi stamað mikið í æsku en náð tökum á staminu, en það hafi komið upp þegar hann varð taugaóstyrkur í kappræðunum. 

„Þetta kom út eins og honum liði ekki vel í þessum aðstæðum - og kannski skiljanlega, þar sem það var sífellt verið að hnippa í hann.“

Frammistaða Trumps hafi verið eins og búist var við: „Sitjandi forsetar búa við þann ókost í þessum aðstæðum að þeir hafa minni tíma til að undirbúa sig fyrir þessar kappræður. Mér fannst það sjást að Trump hafði minni tíma. Hann var með tilbúin nokkur mál sem hann ætlaði að skjóta á Biden, en ekki málefnalega, ekki með samtengda punkta sem hann gat sett fram með röklegum hætti. Hann var bara í árásarham að gjamma og glefsa svolítið í Biden.“

Trump afvegaleiðir umræðuna

Nokkuð hefur verið fjallað um skattamál Trumps, en í ljós hefur komið að hann hefur borgað hverfandi skatta á undanförnum árum, og aðeins 750 dollara árið 2016. Þessi mál náðu ekki miklu flugi í þessari umræðu?

„Alls ekki,“ segir Silja Bára. „Markmið Trumps held ég að hafi verið að afvegaleiða umræðuna og ekki láta draga sig inn á óþægileg svið, eins og COVID-19, þar sem hann hefur ekki staðið sig vel. Og alltaf þegar svona mál koma upp slær hann Biden út af laginu með því að draga son hans inn í málin og nær einhvern veginn að ýta umræðunni í allt aðrar áttir.

Breyta þessar kappræður einhverju um niðurstöður kosninganna?

„Ég hef ekki mikla trú á því að fólk sem er ákveðið að kjósa og skráð í annan hvorn flokkinn - í langflestum ríkjum þarf að skrá sig sem demókrata eða repúblikana til að kjósa - að það fólk muni hreyfa sig. Það er auðvitað alltaf eitthvað óvissufylgi og fólk sem er óvisst um hvort það muni kjósa, og ég held ekki að þetta kvöld hafi verið hvetjandi fyrir þann hóp. Það er auðvitað eitthvað sem skiptir demókratana mestu máli, að fjölga þeim sem mæta á kjörstað, þannig að ég hef ekki trú á að þetta hafi mikil sýnileg áhrif, en þetta gæti veikt stöðu Bidens frekar en styrkt hana,“ segir Silja Bára.  

Herhvöt Trumps

Trump var ítrekað beðinn um að afneita hópum sem segjast berjast fyrir yfirburðum hins hvíta kynþáttar. Ummæli hans um það vöktu athygli og áhyggjur margra, þegar hann ávarpaði öfgahópinn Proud Boys, og sagði þeim að víkja til hliðar en vera reiðubúnir: „Stand down, stand by,“ sagði Trump.

„Hvernig er hægt að túlka þetta stand by öðruvísi en „verið til reiðu,“ spyr Silja Bára. „Margir óttast að þetta sé svona byrjun á því að Trump muni neita að viðurkenna útkomu kosninganna ef hann tapar, og sé þarna að segja fólki að vera tilbúið að grípa til vopna. Það er auðvitað mikil spenna víða í BAndaríkjunum, það þarf lítið til að þessi mótmæli springi í loft upp, og hvað þá ef það eru tilbúnir hópar sem eru andstæðir þeim sem eru tilbúnir að grípa til vopna.“

Margir óttist hvað gerist ef Trump tapar kosningunum.

„Og kannski frekar ef Trump tapar,“ segir Silja Bára. „Biden reyndi að segja á einhverjum tímapunkti að segja að hann myndi sætta sig við útkomuna hver sem hún verður, svo það er kannski það sem fólk telur að verði skárri kosturinn, því þá verður ekki gripið til vopna.“

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi