Birkir Blær fagnar útgáfu sinnar fyrstu plötu

Mynd: - / Aðsend

Birkir Blær fagnar útgáfu sinnar fyrstu plötu

30.09.2020 - 18:11

Höfundar

„Maður verður bara að vera patient, því allt svona líður hjá,“ segir Birkir Blær, tvítugur tónlistarmaður frá Akureyri sem nýverið gaf út sína fyrstu plötu. Platan ber titilinn Patient og fjallar um erfiða hluti sem fólk tekst á við í lífinu. Birkir Blær fagnar útgáfunni með tónleikum á Græna hattinum á Akureyri.

Platan inniheldur tíu frumsamin lög þar sem undirtóninn er erfitt tímabil í lífi Birkis. „Platan snýst aðallega um vandamál í lífi manns einhvern veginn. Hún heitir Patient af því hún byrjar svolítið leiðinlega, hún er smá þung textalega séð stundum, og í lokin verður hún happy þannig að maður verður bara að vera patient af því allt svona líður hjá,“ segir Birkir.

„Sum lögin, eins og Migraine, uppáhaldslagið mitt á plötunni, er beint um þunglyndi og svoleiðis hluti sem hafa aðeins verið að trufla mig í lífinu, eða á þessum tíma. Síðan er þetta bara um ástarsorg og svoleiðis, þessa klassísku poppsöngvarahluti,“ segir Birkir Blær, sem telur að flestir geti tengt við efni plötunnar. 

Platan var tvö ár í smíðum og Birkir Blær segist hafa sótt innblástur víða. „Þegar ég var að byrja þá var aðaláhrifavaldurinn Ed Sheeran. Það heyrist mjög vel til dæmis á laginu Stranger, þetta var svona meira rómantískt popp einhvern veginn. Síðan kom inn Billie Eilish sem hafði mjög mikil áhrif. Síðan er gæi sem heitir Maseko sem er svona jazz-hiphop blanda af tónlist sem kom svolítið þarna inn líka. Síðan fór ég yfir í R&B-tónlistina. Þannig að það er svolítið eftir lögum, misjafnt hvernig tónlistarstefnan er,“ segir Birkir Blær. 

Útgáfu plötunnar verður fagnað á Græna hattinum fimmtudaginn 1. október kl. 21:00.  

Rætt var við tónlistarmanninn Birki Blæ um nýju plötuna hans í Popplandi á Rás 2. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Uppfærður listi er skellur fyrir miðaldra rokkaðdáendur

Popptónlist

Nýtt frá Bubba, Högna, Röggu Gröndal og Ísold

Popptónlist

Hjálmar gefa út nýja plötu og myndband

Popptónlist

Lyftutónlist með Moses Hightower