Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Biden og Harris birtu skattaskýrslur sínar

epa08707140 Democratic presidential candidate Joe Biden participates in the first 2020 presidential election debate at Samson Pavilion in Cleveland, Ohio, USA, 29 September 2020. The first presidential debate is co-hosted by Case Western Reserve University and the Cleveland Clinic.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden, forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, birti í gær skattframtal sitt fyrir síðasta ár og tengd gögn. Meðframbjóðandi hans, varaforsetaefnið Kamala Harris, gerði það einnig.

 

Biden-hjónin, Joe og Jill, greiddu nær 288.000 Bandaríkjadali í tekjuskatt á síðasta ári, jafnvirði tæplega 40 milljóna íslenskra króna. Um leið og Biden birti skattframtalið hvatti hann mótframbjóðanda sinn, Donald Trump, Bandaríkjaforseta, til að gera hið sama.

Bandaríska blaðið New York Times greindi frá því á dögunum að Trump hefði einungis greitt 750 Bandaríkjadali í tekjuskatt fyrir árið 2016, og engan tekjuskatt ellefu ár af þeim átján sem blaðið hefði aflað sér upplýsinga um. Forsetinn vísar þessu á bug og kallar umfjöllun New York Times falsfréttir. Hann neitar enn að birta upplýsingar um skattamál sín, öfugt við forvera sína í embætti allar götur frá því að Richard Nixon birti slík gögn snemma á áttunda áratug síðustu aldar.

Heildartekjur Biden-hjónanna á síðasta ári námu tæpri milljón Bandaríkjadala, en Kamala Harris og hennar maður, Doug Emhoff, gáfu upp ríflega þriggja milljóna dala tekjur. Af þeim greiddu þau tæplega 1,2 milljónir dala í skatta. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV