Beðið eftir barbörunum - J.M. Coetzee

Mynd: EPA/Forlagið / EPA/Forlagið

Beðið eftir barbörunum - J.M. Coetzee

30.09.2020 - 08:00

Höfundar

Beðið eftir barbörunum er stórmerkileg bók eftir suður-afríska nóbelsskáldið J.M. Coetzee og eflaust þekktasta verk höfundar. Bókin kom út á tímum aðskilnaðarstefnunnar en þótt sagan sé staðlaus og fjalli um ónefnt heimsveldi er hún ljóðræn og beitt gagnrýni á nýlendutímann, aðskilnað manna og valdbeitinu.

Beðið eftir barbörunum kom út árið 1980. Höfundurinn, John Maxwell Coetzee, var allan sinn feril afar gagnrýninn á stjórnmál í heimalandi sínu, Suður-Afríku og bókin ber þess sterklega merki. Sagan segir af ónefndum dómara í litlum landnemabæ á mörkum valdamikils heimsveldis. Lífið í bænum er kyrrlátt þar til herdeild sest þar að vegna yfirvofandi styrjaldar barbaranna þótt óvíst sé hvort um raunverulega ógn sé að ræða. En þrátt fyrir það byrjar herforinginn, Joll, að taka hina títtnefndu barbara fanga og pynta þá í leit að upplýsingum um fyrirhugaða árás. Dómarinn kann illa við framgöngu herforingjans og siðferðislegar spurningar vakna um aðgerðir Heimsveldisins og nýlendubrölt þess. 

Beðið eftir barbörunum kom út í íslenskri þýðingu á þessu ári og komu tveir þýðendur að verkinu, þau Sigurlína Davíðsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson. Bókin var upprunalega þýdd af Sigurlínu fyrir útvarp árið 1984 og endurskoðuð af Rúnari Helga fyrir prentuðu útgáfuna.

Viðmælendur í Bók vikunnar á sunnudaginn verða þau Ástráður Eysteinsson prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Tinna Ásgeirsdóttir verkefnastjóri hjá Rithöfundasambandi Íslands.