Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spá uppsveiflu ef bóluefni næst fyrir næsta sumar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Náist tök á kórónuveirufaraldrinum má búast við því að íslenskt efnahagslíf taki vel við sér strax á næsta ári. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir árin 2020 til 2022. Bankinn spáir 8,6% samdrætti á þessu ári, en 3,1% hagvexti á því næsta og 4,7% hagvexti árið 2022.

Íslandsbanki kynnir í dag nýja þjóðhagsspá sína til næstu tveggja ára. Í spánni er miðað við að bóluefni gegn COVID-19 verði komið í almenna dreifingu fyrir næsta sumar. Gangi það eftir spáir bankinn hagvexti strax á næsta ári. Á þessu ári spáir bankinn hins vegar 8,6% samdrætti.

„Það verður djúpur samdráttur í ár, hjá því verður ekki komist í okkar litla, útflutningsdrifna hagkerfi,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Kemur í veg fyrir langvinn vandamál

„Horfurnar eru hins vegar heldur betri en við horfðum á fyrr á árinu. Við erum að gera ráð fyrir 8,6% samdrætti sem er svona heldur skárri niðurstaða en áður. Tveir þriðju af því eru vegna samdráttar í útflutningi og einn þriðji vegna minni neyslu og fjárfestingar. En það eru hins vegar horfur á að við náum okkur nokkuð hratt upp úr þessari dýfu að því gefnu að við fáum bóluefni fyrir háönnina á næsta ári. Þá erum við að gera ráð fyrir 3% vexti það ár og að við verðum svo komin í 4,7% hagvöxt árið 2022. Þannig að þessi bati kemur vonandi í veg fyrir að við fáum hér djúpstæð og langvinn vandamál á borð við langtímaatvinnuleysi og stóran hluta af atvinnulífinu í dróma,“ segir Jón Bjarki.

En þetta er algjörlega háð því að bóluefni finnist og að ferðamannaiðnaðurinn taki við sér?

„Já sagan er svolítið tvískipt á næsta ári, eftir því hvoru megin háannar við fáum faraldurinn í baksýnisspegilinn. Vissulega höfum við burðina til þess að ná okkur upp úr kreppunni hvort heldur sem er, því við höfum það sterkar undirstöður.  En eftir því sem lengra verður í þennan bata í ferðaþjónustunni, þá þurfum við að treysta í  ríkari mæli á aðra geira; efla annan útflutning, efla nýsköpun sem er alltaf brýnt verkefni, og að ráðast í miklu djúpstæðari breytingar á samsetningunni á hagkerfinu okkar. Það er miklu sársaukafyllra og tekur lengri tíma. Þannig að heppilegast væri auðvitað ef ferðaþjónustan sjálf nái vopnum sínum á næsta ári. Við erum að gera ráð fyrir 800.000 ferðamönnum. Það er hófleg spá miðað við síðustu ár en það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í því.“

Bjuggum okkur vel undir skellinn

Hvað með vextina, nú eru þeir í algjöru lágmarki, hverju spáið þið um framhaldið þar?

„Við gerum ráð fyrir að vextirnir séu komnir niður í botn hvað stýrivexti varðar, að þeir verði áfram 1%. Það hefur verið talað um það af hálfu Seðlabankans að þeir horfi ekki síður til þess að beita öðrum tækjum til þess að smyrja hjólin, öðrum en vaxtastiginu. Það hefur líka spilað sterkar inn í, sérstaklega yfir til heimilanna en oft áður. Þannig að við gerum ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á mitt næsta ár og svo hægri hækkun vaxta. Þannig að eftir sem áður verða vextir lægri á komandi árum en við höfum átt að venjast í íslensku hagkerfi, en við erum líklega í botninum núna og fram á mitt næsta ár.“

Þannig að heilt yfir, þá teljið þið að það sé bjart framundan, þrátt fyrir þessa djúpu kreppu sem við erum í núna?

„Já við bjuggum okkur svo vel undir þennan skell, þratt fyrir allt, með ráðdeild þegar hæst hóaði. Við þurfum að ganga á þennan forða núna og mikilvægt að gera það sem skilvirkast. En það þarf ansi mikið til þess að ýta hagkerfinu ofan af sterkri undirstöðu sem við góðu heilli byggðum undir það í góðærinu undanfarin ár,“ segir Jón Bjarki.