
1.193 börn bíða eftir sálfræðigreiningu eða -meðferð
Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingmanns Flokks fólksins, um úrræði fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.
Í svari ráðherra er tilgreindur fjöldi þeirra barna sem biðu eftir þessari þjónustu um miðjan mánuðinn og er hann greindur eftir heilbrigðisstofnunum og landshlutum.
159 börn bíða eftir sálfræðigreiningu og -meðferð hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Tíu börn bíða eftir greiningu og meðferð á Sjúkrahúsinu á Akureyri og til viðbótar á eftir að taka fyrir mál 11 barna. 32 börn eru á biðlista eftir þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sjö börn bíða eftir þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og 14 börn eru á biðlista hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
95 börn bíða eftir meðferð á Heilbrigðisstofnun Austurlands og á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eru 132 börn á biðlista eftir sálfræðiþjónustu.
Á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eru 33 börn á biðlista eftir sálfræðiþjónustu eða meðferð við geðrænum vanda.
Guðmundur Ingi spurði einnig um hversu lengi þyrfti að bíða eftir innlögn á BUGL. Í svari ráðherra kom fram að stærstur hluti innlagna þar eru bráðainnlagnir sem gerast samdægurs. Meðalbiðtími göngudeildarþjónustu BUGL er nú um sjö og hálfur mánuður.