„Þegar Prince dó ákvað ég að hætta að fresta“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þegar Prince dó ákvað ég að hætta að fresta“

28.09.2020 - 09:04

Höfundar

Árið 1990 keyrði Eiður Arnarsson bassaleikari 450 kílómetra í einum rykk til að sjá tónleika með poppgoðinu Prince heitnum. Þegar hann og Íris kona hans voru hins vegar mætt á tónleikastaðinn eftir langan akstur komust þau að því að þau gátu ekki keypt miða því VISA-kortin virkuðu hvergi í landinu.

Eiður Arnarsson, bassaleikari í Stjórninni og Todmobile, er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann hefur verið hljóðfæraleikari að atvinnu í hátt í fjörutíu ár en hann starfaði einnig sem tónlistarútgefandi í 17 ár og hefur gefið út mörg hundruð titla. Hann er núna með annan fótinn í Brussel þar sem konan hans starfar en heimsækir heimaslóðir í Vestmannaeyjum allt of sjaldan. Eiður er þó sannkallaður Eyjapeyi í hjarta. „Það var yndislegt að alast upp í Eyjum. Ég var partur af fjölmennum árgangi og á enn góða vini þaðan,“ segir Eiður í samtali við Matthías Má Magnússon í Lagalistanum á Rás 2.

Eiður hefur getið sér gott orð sem einn fremsti bassaleikari þjóðarinnar en viðurkennir að það hafi ekki alltaf staðið til að munda bassann. Hann var sleipur á gítarinn á unglingsaldri en neyddist til að taka upp bassann þegar það vantaði bassaleikara í hljómsveit vina hans. Síðan hefur hann ekki litið um öxl. „Félagar mínir voru í hljómsveit sem mig langaði að vera með í en þeir spiluðu báðir á gítar svo það var ekki kostur í stöðunni fyrir mig. Mér var því réttur bassinn sem ég þáði með þökkum og þó ég segi sjálfur frá tók ég fáránlegum framförum fljótt. Ég fann strax að þetta hljóðfæri hentaði mjög vel.“

Hann kveðst þakklátur fyrir að hafa alist upp á 8. áratugnum því hann segir að á þeim árum hafi besta tónlist sögunnar komið út. Hann nefnir sem dæmi ABBA, KISS, Queen og Pink Floyd sem allar eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Hann og konan hans, Íris Bjargmundsdóttir, eru bæði miklir Prince-aðdáendur. Þegar þau voru stödd í Austurríki á ferðalagi árið 1990 fréttu þau að hann væri með tónleika í Sviss og nokkrum klukkutímum síðar ákváðu þau að bruna af stað. Þau keyrðu 450 kílómetra til að sjá poppíkonið á sviði en áætlunin fór út um þúfur. „Við vorum mætt á svæðið um hálf fimm en vorum ekki með neinn pening á okkur, bara kort, sem hafði ekki verið neitt vandamál í allri ferðinni, við borguðum bara með því,“ segir Eiður. En þegar hjónin byrjuðu að svipast um eftir VISA-hraðbanka byrjuðu þau fljótt að ókyrrast því þeir voru hvergi sýnilegir. „Það voru Eurocard-hraðbankar en enginn VISA.“ Þau brugðu á það ráð að hringja í neyðarnúmer VISA og fengu þau svör að engir slíkir hraðbankar væru í landinu.

Þau héldu á hótelið og spurðu hvort það væri mögulegt að strauja kortið fyrir upphæðinni sem þau vantaði fyrir miðunum en því var neitað. „Við fórum á tónleikastaðinn og reyndum að kaupa miða á kortið, við vorum orðin vondauf, og það var ekki hægt.“ Það voru þung skref aftur heim á hótelið en þau heyrðu óminn af tónleikunum í fjarska. Þegar þau fóru svo næsta morgun niður í morgunmat á hótelinu var þar stór hópur fólks að matast og Eiður og Íris áttuðu sig fljótt á að þarna væri á ferðinni starfsmannalið tónlistarmannsins, en hann sjálfur hvergi í augsýn. „Þetta var bara til að strá salti í sárin. Við drifum okkur út í bíl og keyrðum til Austurríkis.“

Þegar Prince féll frá árið 2016 og Eiður áttaði sig á að hann myndi aldrei aftur fá tækifæri til að sjá hann á tónleikum tók hann ákvörðun. „Þá ákvað ég að hætta að fresta og síðan hef ég drifið mig að sjá margt sem ég er með á lista,“ segir Eiður.

Lagalistinn er nýr þáttur á dagskrá Rásar 2 alla sunnudagsmorgna. Hægt er að hlýða á allan þáttinn hér í spilara RÚV.