Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sri Lanka sendir rusl aftur til Bretlands

28.09.2020 - 04:12
epa07607025 Plastic waste is seen inside a cargo container before it is sent back to the country of origin in Port Klang, Selangor, Malaysia, 28 May 2019. Malaysia will ship 450 metric tons of contaminated plastic waste back to the countries of origin said Yeo Bee Yin today on 28 May. The waste came from Australia, US, Canada, Saudi Arabia, Japan, China, Spain and Bangladesh.  EPA-EFE/FAZRY ISMAIL
Gámur með plastúrgangi í höfninni í Port Klang í Malasíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
21 ruslagámur verður sendur aftur til Bretlands frá Sri Lanka eftir að hættuleg efni fundust í þeim. Alls voru 263 gámar fullir af rusli sendir frá Bretlandi til eyríkisins í Asíu. Tollverðir í Sri Lanka fundu sorp frá sjúkrahúsum í mörgum gámanna, auk plastúrgangs.

Gámarnir áttu að innihalda notaðar dýnur, teppi og mottur til mögulegrar endurvinnslu. Flestir gámanna eru geymdir í vöruskemmum. Yfirvöld í Sri Lanka höfðuðu mál gegn einkafyrirtækinu sem flutti gámana til landsins árið 2018.

21 gámur hefur nú verið sendur til baka, enda er flutningur úrgangs af þessu tagi brot á alþjóðareglum og reglum Evrópusambandsins um losun hættulegs úrgangs.

Fréttastofa BBC hefur eftir talsmanni umhverfisstofnunar Englands að stofnunin sé í sambandi við yfirvöld í Sri Lanka. Óskað hefur verið eftir gögnum svo hægt verði að hefja formlega rannsókn á málinu.

Sri Lanka er síður en svo eina ríkið sem hefur ákveðið að senda til baka rusl frá erlendum ríkjum. 42 gámar voru fluttir til baka frá Malasíu til Bretlands í janúar. Þeir innihéldu plastúrgang sem var fluttur ólöglega til Malasíu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV