Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sammála um að sameiginlegra viðbragða sé þörf

„Ekkert að frétta, bara allir glaðir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eftir fund formanna ríkisstjórnarflokkanna með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í Ráðherrabústaðnum. Fundinum lauk á sjöunda tímanum, en þetta var í annað skiptið sem þessir aðilar funduðu í dag um þá stöðu sem upp er komin í kjaramálum, en SA telur forsendur Lífskjarasamningsins brostnar.

„Við munum örugglega geta gefið einhverja yfirlýsingu,“ svaraði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins spurður um hvort hann væri bjartsýnn á lausn mála. 

„Eigum við ekki að segja sem svo að við höfum öll sameiginlegar áhyggjur af því að samdráttur bitni á fjölda starfa í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. „Staðan sem við stöndum frammi fyrir er tap á landsframleiðslu. Við þurfum öll að taka höndum saman við að endurheimta landsframleiðsluna og koma verðmætasköpun aftur í gang.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði eftir fundinn að ýmis atriði hefðu komið fram á fundinum í morgun sem hefðu þurft meiri tíma við og því hefði verið fundað aftur. „Við nýttum daginn í að vera í samtölum við formenn stjórnarflokkanna, útfæra það sem þyrfti frekara samtal.“

Halldór Benjamín sagði að ríkisstjórnin og SA væru sammála um að nauðsynlegt væri að ná fram sameiginlegu viðbragði við þeim aðstæðum sem nú væru uppi. Hann sagði að framgöngu SA undanfarna daga hefði ekki verið á neinn hátt ætlað að hafa áhrif á aðgerðir ríkisstjórnarinnar.  Skiptar skoðanir væru innan SA um hvernig best væri að bregðast við stöðunni og því hefði sú ákvörðun verið tekin að greiða atkvæði um hugsanlega uppsögn Lífskjarasamningsins.

Atkvæðagreiðslan átti að hefjast í dag, en var frestað til hádegis á morgun. Henni mun ljúka í hádeginu á miðvikudaginn en ákvörðun þarf að liggja fyrir klukkan 16 þann dag.