Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ljótur blettur á alþjóðlegu viðskiptakerfi“

28.09.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Eimskip
Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, ætlar að kalla eftir upplýsingum frá Eimskip, um niðurrif tveggja gámaflutningaskipa í Asíu. Eimskip er aðildarfélagi Festu. Skipaniðurrif í Alang er ljótur blettur á alþjóðlegu viðskiptakerfi, segir framkvæmdastjóri Festu.

Fjallað var um það í Kveik í síðustu viku að tveimur stórum gámaflutningaskipum Eimskips, Goðafossi og Laxfossi, var fargað á Alang-strönd við Indland. Félagið hefði selt skipin til alþjóðafyrirtækisins GMS sem sérhæfir sig í því að vera milliliður; kaupir skip og selur áfram til niðurrifs á ströndum Asíu. Fjöldi alþjóðasamtaka og stofnana hafa fordæmt aðstæður á ströndinni. Þar er lítið um mengunarvarnir og ekki gætt að öryggi þeirra sem þar vinna.

Umhverfisstofnun hefur kært málið og það er nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara. Stærstu lífeyrissjóðir landsins ætla að óska eftir skýringum frá stjórnendum Eimskips, en þeir hafa hafnað ásökunum um lögbrot.

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð eru frjáls félagasamtök sem hafa meðal annars það hlutverk að auka þekkingu á samfélagsábyrgð fyrirtækja. Eimskip á aðild að Festu og þar er Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri.

„Að sjá starfsskilyrði og umhverfi í Alang gerir mann mjög sorgmæddan. Það er ekki spurning. Og þetta er ljótur blettur á alþjóðlegu viðskiptakerfi. Og þar sem okkar markmið hjá Festu er að stuðla að sjálfbærni í samfélögum og viðskiptamódelum, þá munum við eiga samtal við okkar aðildarfélag og ræða þessi mál betur seinna í vikunni,“ segir Hrund.

Það sem þarna virðist hafa gerst - er það í samræmi við stefnu Festu um samfélagslega ábyrgð?

„Það sem er gert í Alang er að sjálfsögðu ekki í neinum takti þann sjálfbæra heima sem við viljum sjá.“

Mikilvægt skref

Hvaða tæki hefur Festa til þess að bregðast við?

„Það sem við gerum er að eiga samtal til að byrja með. Við erum með aðildarfélög sem eru starfandi alþjóðlega eða innanlands og virðiskeðjurnar um heiminn eru mislangar. Það er margt sem er mjög vel gert hjá Eimskip í þeirra sjálfbærninálgun. Þetta tiltekna mál er eitthvað sem við þurfum að ræða betur og skoða hvernig við tökum á og hvernig þau vinna með þetta. Það er næsta verkefni, svo tökum við bara stöðuna út frá því.“ 

Hrund bendir á að á föstudaginn hafi verið undirrituð viljayfirlýsing um sjálfbærar fjárfestingar.

„Ríkisstjórn Íslands og þeir aðilar sem eiga 80% af eignum á fjármálamarkaði undirrituðu þessa viljayfirlýsingu sem er rosalega mikilvægt skref í átt að mótun atvinnulífs og samfélags á Íslandi næstu árin. Hún er mikilvægt skref í að taka umræðuna á meiri dýpt. Og ástæða þess að Festa og samstarfsaðilar fóru í þessa vegferð er einmitt til þess að taka á ákveðnum viðskiptaháttum sem við viljum að sé breytt til frambúðar í heiminum,“ segir Hrund.