Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krabbameinsfélag Akureyrar í erfiðleikum

staðgengill framkvæmdastjóra krabbameinsfélags akureyrar og nágrennis
 Mynd: Aðsend mynd
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis leitar nú leiða til þess að tryggja áframhaldandi rekstur þjónustumiðstöðvar en félagið á í miklum rekstrarerfiðleikum vegna áhrifa af heimsfaraldrinum. Ef fer sem horfir mun rekstrarfé félagsins klárast í febrúar.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis rekur þjónustumiðstöð fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra. Starf félagsins byggist nær alfarið á stuðningi einstaklinga og fyrirtækja ásamt styrk frá Velunnarasjóði Krabbameinsfélags Íslands. „Það stefndi í ágætan rekstur á árinu 2020 en svo skellur COVID á í febrúar og síðan þá hafa einn eða tveir styrkir komið inn, annars hefur eiginlega allt verið í pásu“ segir Marta Kristín Jónsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.  

Leita til sveitarfélaga og fyrirtækja

Þeir styrkir sem hafi komið úr stórum fjáröflunum á árinu eins og úr hrútnum og Reykjavíkurmaraþoni hafi ekki skilað sömu tekjum og seinustu ár. Hún segir félagið hafa leitað til sveitarfélaga á svæðinu svo þjónustan geti haldið áfram í óbreyttri mynd. Nú þegar hafa Akureyrarbær og Fjallabyggð hafnað þeirri beiðni.

Félagið hefur því sent út tilkynningu og kallar eftir aðstoð frá fjársterkum aðilum á svæðinu. Í tilkynningunni segir að félagið sé mikilvægur hlekkur í bataferli krabbameinsgreindra. Þjónustan og sérfræðiþekking innan félagsins sé einstök og ekki að finna sambærilega þjónustu innan heilbrigðiskerfisins á svæðinu. Fari sem horfir muni rekstrarfé félagsins klárast í febrúar á næsta ári. 

Og hvað tekur þá við? „Það er bara góð spurning,“ segir Marta.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV