Nýgengi COVID-19 smita innanlands hér á landi er það sjöunda mesta í Evrópu og það mesta á Norðurlöndunum. Þetta sýna tölur Evrópsku sóttvarnarstofnunarinnar, ECDC. Nýgengi hér er nú 128,2.
Með nýgengi er átt við fjölda smita á hverja 100.000 íbúa undanfarna 14 daga.
Taflan er uppfærð daglega að morgni dags. Spánn er það Evrópuland þar sem nýgengi er mest, 319,9. Í Tékklandi er það næstmest, 266,8 og þriðja mesta nýgengið er í Frakklandi þar sem það er 235.
Önnur Evrópulönd þar sem nýgengi er meira en hér á landi eru Lúxemborg, Holland og Belgía.
Nýgengi í Danmörku er 127,8, í Svíþjóð er það 42,7, í Noregi 28,9 og 20 í Finnlandi.